Körfubolti

Treyja Shaq upp í rjáfur hjá Miami Heat rétt fyrir jólin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O'Neal fagnar titlinum með Miami Heat.
Shaquille O'Neal fagnar titlinum með Miami Heat. Vísir/Getty
Shaquille O’Neal fær skemmtilega jólagjöf frá Miami Heat fyrir þessi jól en félagið ætlar að þakka honum fyrir að hjálpa Heat að vinna fyrsta NBA-titil sinn fyrir tíu árum.

Þann 22. desember næstkomandi mun Miami Heat halda formlega athöfn í tengslum við leik liðsins á móti Los Angeles Lakers þar Miami-treyja Shaquille O’Neal verður hengd upp í rjáfur á AmericanAirlines Arena.

Athöfnin mun fara fram í hálfleik og munu bæði Shaquille O’Neal sjálfur og Pat Riley halda ræðu. Shaquille O’Neal verður aðeins þriðji leikmaður í sögu Miami Heat sem hlotnast þessi mikli heiður en hinir eru þeir Alonzo Mourning og Tim Hardaway.

Það er að sjálfsögðu viðeignandi að athöfnin fari fram á leik Miami Heat og Los Angeles Lakers en Shaquille O’Neal kom einmitt til Heat í skiptum milli félaganna í júlí 2004.

Shaquille O’Neal gerði nýjan samning við Miami Heat sumarið eftir og spilaði alls þrjú og hálft ár með félaginu.

Shaquille O’Neal var lykilmaður þegar Miami Heat vann sinn fyrsta NBA-meistaratitil árið 2006.

Shaquille O’Neal er með bestu skotnýtinguna í sögu Miami Heat (59,6 prósent) og hann er í 3. sæti yfir flest stig í leik (19,6), í sjötta sæti yfir flest varin skot (384), í ellefta sæti í fráköstum (1856) og í fjórtánda sæti yfir heildarstig (4010) svo eitthvað sér nefnt.

Hægt er að lesa meira um afrek Shaquille O’Neal með Miami Heat með því að smella hér.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×