Innlent

Traust á Jóhönnu fellur úr 64 í 17 prósent

Færri treysta Jóhönnu Sigurðardóttur nú, en fleiri Ólafi Ragnari Grímssyni.
Færri treysta Jóhönnu Sigurðardóttur nú, en fleiri Ólafi Ragnari Grímssyni.
Verulega hefur dregið úr trausti almennings á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra samkvæmt skoðanakönnun MMR.

Alls segjast 16,9 prósent treysta Jóhönnu í nýrri könnun MMR, en 23,9 prósent báru traust til hennar í síðustu könnun, sem gerð var í maí í fyrra. Fallið er þó mun hærra ef farið er lengra aftur, en 63,6 prósent treystu Jóhönnu í sambærilegri könnun sem gerð var í desember 2008.

Traust almennings á Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra hefur einnig minnkað. Nú segjast 22,3 prósent bera traust til Steingríms, en 37,6 prósent sögðust treysta honum í maí í fyrra.

Traust á Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, eykst hins vegar milli kannana, og nálgast nú það sem var árið 2008. Nú segjast 41,7 prósent þeirra sem afstöðu tóku treysta forsetanum, en 26,7 prósent treystu honum í maí í fyrra.

Traust almennings á Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, eykst milli kannana. Um 19,1 prósent segist treysta honum nú, en 13,8 prósent treystu honum í síðustu könnun.

Litlar breytingar hafa orðið á trausti almennings á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanns Framsóknarflokksins. Alls segjast 15,3 prósent treysta honum nú, svipað hlutfall og í maí í fyrra.

Könnunin var síma- og netkönnun, gerð 8. til 11. mars. Alls tóku 902 þátt í könnuninni.- bj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×