Erlent

Traktor dugði til að hræða hvítabirnina

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hvítabirnir á flótta. Myndin er úr safni.
Hvítabirnir á flótta. Myndin er úr safni.
Rússnesku vísindamennirnir fimm, sem hvítabirnir sátu um á lítilli eyju í Norður-Íshafinu, eru nú lausir úr umsátrinu. Jafnframt hefur tekist að koma til þeirra nýjum vistum með þyrlu, sem send var frá skipi.

Eins og fram kom í frétt Vísis í síðustu viku dvöldu vísindamennirnir á veðurstöð á eyju í Karahafi norður af Síberíu þegar hópur hvítabjarna settist um húsið. Vísindamennirnir höfðu fyrirmæli um að reyna að fæla þá burt með neyðarblysum og háværum flautum en allt kom fyrir ekki.

Að lokum fundu þeir þó aðferð sem dugði. Þeir ræstu traktor og þannig tókst þeim að hrekja birnina brott í örugga fjarlægð, að minnsta kosti tímabundið, samkvæmt frétt The Barentsobserver. Svo þegar þyrlan kom fljúgandi var hægt að hræða þá enn lengra í burtu. 

Eyjan er um fimmtán kílómetrar á lengd og fimm kílómetrar að breidd. Venjulega hafa 4-6 birnir haldið sig á eynni fjarri veðurstöðinni án þess að vísindamenn hafi þurft að hafa áhyggjur. Í sumar hafa birnirnir hins vegar verið 8-9 talsins og er ástæðan rakin til hlýinda.

Til að tryggja öryggi vísindamanna á slóðum hvítabjarna hafa rússnesk stjórnvöld nú ákveðið að koma upp rafmagnsgirðingum umhverfis rannsóknarstöðvar á heimskautasvæðum.


Tengdar fréttir

Ísbirnir sitja um vísindamenn

Fimm rússneskir vísindamenn sem staðsettir eru á lítilli eyju í Norður Íshafinu eru umkringdir af um tíu ísbjörnum og hafa verið það síðustu tvær vikurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×