Handbolti

Torsóttur Gróttusigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Finnur Ingi Stefánsson skoraði níu mörk fyrir Gróttu í kvöld.
Finnur Ingi Stefánsson skoraði níu mörk fyrir Gróttu í kvöld. vísir/vilhelm
Grótta vann torsóttan tveggja marka sigur, 28-26, á Fram í 1. umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld.

Mikilvægur sigur hjá Seltirningum en Fram, sem var spáð neðsta sæti deildarinnar, spilaði vel á löngum köflum í kvöld og var nálægt því að ná í stig.

Finnur Ingi Stefánsson var markahæstur í liði Gróttu með níu mörk en Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði átta mörk fyrir Fram.

Grótta komst í 2-1 eftir sex mínútur en það var í eina skiptið sem liðið leiddi í fyrri hálfleiknum.

Strákarnir úr Safamýrinni voru með fín tök á leiknum í fyrri hálfleik og náðu mest fjögurra marka forskoti, 6-10. Í hálfleik munaði svo tveimur mörkum á liðunum, 11-13.

Seltirningar byrjuðu seinni hálfleikinn af gríðarlegum krafti og skoraði fyrstu sjö mörk hans.

Um miðjan seinni hálfleik munaði fjórum mörkum á liðunum, 20-15, en þá kviknaði aftur á gestunum sem skoruðu sjö mörk í röð og náðu tveggja marka forystu, 20-22.

Lokamínúturnar voru æsispennandi en Gróttumenn sigldu á endanum framúr og tryggðu sér stigin tvö. Lokatölur 28-26, Gróttu í vil.

Mörk Gróttu:

Finnur Ingi Stefánsson 9/6, Nökkvi Dan Elliðason 5, Júlíus Þórir Stefánsson 4, Vilhjálmur Geir Hauksson 4, Leonharð Þorgeir Harðarson 3, Þráinn Orri Jónsson 3.

Mörk Fram:

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 8/1, Arnar Birkir Hálfdánarson 5, Sigurður Örn Þorsteinsson 4, Valdimar Sigurðsson 3, Andri Þór Helgason 2/1, Bjartur Guðmundsson 2, Svanur Vilhjálmsson 1, Þorgeir Bjarki Davíðsson 1/1.

Upplýsingar um markaskorara og gang leiksins eru fengnar frá mbl.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×