Enski boltinn

Tölfræðin segir að City sé bara meðallið án Kompany

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City.
Wayne Rooney og Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City. Vísir/Getty
Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, var upp í stúku í gær þegar liðið gerði markalaust jafntefli á móti Leicester City í toppslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

City-menn sakna Vincent Kompany mikið og tölfræðin sýnir það og sannar. 56 prósent stiga Manchester City í fyrstu 19 umferðum ensku úrvalsdeildarinnar (20 af 36) hafa komið í þeim átta leikjum sem Vincent Kompany hefur spilað. Liðið hefur aðeins fengið samtals 16 stig í hinum 11 leikjunum.

Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City sagði eftir leikinn að Vincent Kompany verði frá keppni í þrjár til fjórar vikur vegna meiðslanna.

„Þetta er sami kálfi en ekki sami staður," sagði Manuel Pellegrini en Kompany hefur verið að glíma við þessi meiðsli allt tímabilið. Hann meiddist fyrst á kálfa í Meistaradeildarleik á móti Juventus 15. september.

Kompany haltraði útaf í leik á móti Sunderland á öðrum degi jóla eftir að hafa komið inná sem varamaður skömmu áður. Vincent Kompany náði bara að spila í níu mínútur í leiknum og það eru einu mínúturnar hans í ensku úrvalsdeildinni frá því í byrjun nóvember.

Vincent Kompany hefur aðeins spilað 11 af 19 leikjum Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Það munar eins og áður sagði mikið um Vincent Kompany og tölfræðin sýnir það svart á hvítu. City-liðið hefur fengið 2,5 stig að meðaltali í þeim 8 leikjum sem hann hefur spilað en er bara að fá 1,45 stig að meðaltali í leik án hans.

Manchester City hélt reyndar hreinu í fyrsta sinn án Vincent Kompany á móti Leicester í gær en liðið hefur aðeins fengið á sig eitt mark samtals og haldið sjö sinnum hreinu í þeim átta leikjum sem Kompany hefur spilað í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Liðið er því að fá á sig 1,72 mörk í leik þegar Vincent Kompany spilar ekki en með hann í miðri vörninni hefur liðið aðeins fengið á sig eitt mark á 728 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×