Lífið

Töffarar tæma skápana

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Oddur Sturluson ásamt félögum sínum en þeir selja fötin sín á Prikinu á laugardaginn
Oddur Sturluson ásamt félögum sínum en þeir selja fötin sín á Prikinu á laugardaginn MYND/GVA
Ég ákvað að halda fatamarkað þegar það rann upp fyrir mér að allt sem ég á eru föt! Það væri hreinlega komið að því að kaupa sér eitthvað annað, jafnvel skólabækur,“ segir Oddur Sturluson mannfræðinemi en hann blæs til fatamarkaðar á Prikinu á laugardaginn ásamt félögum sínum.

„Við verðum fimm strákar sem eiga það sameiginlegt að vera fatafíklar. Það hafa safnast að okkur föt, jafnvel föt sem ekki eru í okkar númerum. Við verðum því með stærðir allt frá small og upp í XL,“ segir Oddur.

Fyrir utan fatafíknina, en kannski einmitt vegna hennar, eiga félagarnir það líka sameiginlegt að vinna allir í tískuvöruverslunum. Tveir þeirra vinna í Sautján og tveir í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar. Sjálfur vinnur Oddur í Kúltúr menn. Þarna verða því ólíkir fatastílar í gangi.

„Mestmegnis verða þetta flott merki, eins og Raf Simons, Brioni og Burberry. Það verður hægt að gera hjá okkur dúndurkaup, við ætlum ekkert að okra á þessu,“ segir Oddur og viðurkennir að gera yfirleitt vel við sig í fatakaupum.

„Ég er lúxusdýr og veikur fyrir öllu sem eitthvað hefur verið lagt í og er jafnvel með sögu á bak við sig. En auðvitað hefur maður ekki þörf fyrir þessa hluti. Ég nota ekki einu sinni allt af þessu, sem er synd. Þess vegna þarf bara að koma þessum fötum í umferð og í notkun einhvers staðar.“

Markaðurinn hefst klukkan 12 á laugardaginn og stendur til klukkan 17.

En mun fataskápurinn ekki bara fyllast strax aftur?

„Jú, ég er ansi hræddur um það,“ segir Oddur hlæjandi. „Við þurfum kannski að halda fatamarkað reglulega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×