Körfubolti

Tindastóll stöðvaði 23 leikja sigurgöngu KR-inga í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stólarnir unnu KR í kvöld, fyrstir liða í vetur.
Stólarnir unnu KR í kvöld, fyrstir liða í vetur. Vísir/Ernir
Tindastóll varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna KR í Dominos-deild karla í vetur en Tindastóll vann þriggja stiga sigur á KR, 81-78, þegar liðin mættust í fjórtándu umferð deildarinnar í kvöld.

KR er ríkjandi Íslandsmeistari og var búið að vinna þrettán fyrstu deildarleiki tímabilsins. Auk þess vann KR-liðið síðustu tíu deildarleiki síðasta tímabils og Stólarnir voru því að enda 23 leikja sigurgöngu Vesturbæinga í kvöld.

Tindastólsliðið er áfram í öðru sæti deildarinnar nú fjórum stigum á eftir KR en KR vann fyrri leik liðanna eftir framlengingu.

Myron Dempsey skoraði 24 stig fyrir Tindastól, Darrel Keith Lewis var með 15 stig og Darrell Flaks skoraði 11 og tók 9 fráköst. Pétur Rúnar Birgisson var með 9 stig og 8 stoðsendingar.

Helgi Már Magnússon skoraði 21 stig fyrir KR og Michael Craion var með 17 stig og 14 fráköst. Pavel Ermolinskij var með 10 stig,  6 stoðsendingar og 5 fráköst.

Stólarnir voru 20-17 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með fjögurra stiga forskot í hálfleik, 36-32. Tindastólsliðið bætti við forskotið í þriðja leikhlutanum sem liðið vann 21-16.

KR kom til baka í lokaleikhlutanum og komst tveimur stigum yfir, 78-86, eftir að liðið náði 10-2 spretti á loksprettinum. Stólarnir héldu hinsvegar út og tryggði sér sigu með því að skora fimm síðustu stig leiksins.

Darrel Keith Lewis skoraði risastóra körfu og setti niður víti sem hann fékk að auki og hin ungi Pétur Rúnar Birgisson skoraði síðan tvö síðustu stig leiksins af vítalínunni. Pavel Ermolinskij reyndi þriggja stiga skot í lokin en það geigaði og Stólarnir fögnuðu sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×