Viðskipti innlent

Tim Ward: Hvergi krafist ríkisábyrgðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Íslenska lögfræðiteymið í Lúxemborg.
Íslenska lögfræðiteymið í Lúxemborg.
Það er ekkert í tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar sem kveður á um að ríkisábyrgðar eða ríkisfjármögnunar sé krafist, sagði Tim Ward, aðalmálflytjandi Íslendinga í Icesavemálinu þegar hann flutti mál Íslands fyrir EFTA dómstólnum í Luxemborg í morgun. „Tilskipunin gerir ríkinu skylt að setja upp og að stjórna innistæðutryggingakerfi, en það er ekkert kveðið á um það að ríkið verði að greiða bætur," bætti Tim Ward við.

Tim Ward sagði að það væri alveg ljóst að til þess væri ætlast að kostnaðurinn við að fjármagna slíkt innistæðutryggingakerfi ætti í grundvallaratriðum vera borin uppi af lánastofnununum sjálfum. Þá sagði Tim Ward jafnframt að ef kröfur ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, um að Íslendingum hefði borið að tryggja innstæðurnar hefði það strítt gegn reglugerð um ríkisaðstoð.

Tim Ward fór ítarlega yfir tilurð innstæðutilskipunarinnar og sýndi fram á að innstæðutryggingakerfið rís ekki undir stórfelldu bankaáfalli, hvorki á Íslandi né annars staðar. Fjarstæðukennt sé að sjóðirnir hafi yfir fjármunum að ráða sem dugi til að greiða út meirihluta innstæðna í viðkomandi landi. Í slíkum tilvikum grípi stjórnvöld ævinlega til annarra aðgerða, t.d. með því að endurskipuleggja bankakerfið. Íslensk stjórnvöld hafi gripið til þeirra aðgerða sem tækar voru og nauðsynlegar til að koma í veg fyrir heildarhrun á Íslandi. Jafnframt hafi hagur innstæðueigenda í erlendum útibúum bankanna verið tryggður með því að þeim var veittur forgangsréttur við slit og skiptameðferð gömlu bankanna.

Tim mótmælti ásökunum um brot gegn jafnræðisreglu. Grundvallaratriði væri að enginn hefði fengið greitt úr íslenska innstæðutryggingakerfinu og því væri alls ekki um að ræða mismunun innan þess. ESA hefði að öðru leyti ekki útskýrt í hverju meint mismununarbrot hefði falist og að í öllu falli væru réttlætingaraðstæður til staðar í skilningi dómaframkvæmdar á sviði Evrópuréttar.

Tim Ward lauk málflutningi sínum um hádegisbil í dag að íslenskum tíma. Búist er við því að niðurstaða geti fengist í málið fyrir áramót.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×