Körfubolti

Tim Duncan spilar 19. tímabilið með San Antonio Spurs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Duncan.
Tim Duncan. Vísir/EPA
Tim Duncan gaf það formlega út í gær að hann ætli að taka eitt tímabil enn með San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfubolta en Duncan er á eftir sínum sjötta meistaratitli.

„Ég náði loksins að ræða við Gregg Popovich. Ég verð á gólfinu næsta tímabil," sagði Tim Duncan í viðtali við San Antonio Express-News.  Þetta verður nítjánda tímabilið hans með San Antonio Spurs í NBA-deildinni.

Það var búist við því að Duncan héldi áfram en Spurs er nú að reyna að sannfæra LaMarcus Aldridge, fyrrum liðsmann Portland Trail Blazers, um að semja einnig við liðið. Duncan, Gregg Popovich, Tony Parker og Kawhi Leonard voru allir á fundi með Aldridge á miðvikudagskvöldið.

San Antonio Spurs er þegar búið að semja við Kawhi Leonard og Danny Green, Leonard fær 90 milljónir dollara fyrir fimm ár en Green 45 milljónir fyrir fjögur ár.

Tim Duncan spilaði 28,9 mínútur að meðaltali í leik með San Antonio Spurs á síðasta tímabili en hann var með 13,9 stig, 9,1 frákast, 3,0 stoðsendingar og 1,08 varin skot að meðaltali sem eru flottar tölur fyrir 39 ára leikmann.

Duncan komst í þriðja úrvalslið deildarinnar og er það í fimmtánda sinn sem hann er í einu af þremur úrvalsliðum NBA-deildarinnar.

Duncan mun halda upp á fertugsafmælið næsta vor mögulega í miðri úrslitakeppni en hann spilaði sitt fyrsta tímabil með San Antonio Spurs 1997-98.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×