Innlent

Tillaga um ESB-slit á leiðinni

kolbeinn óttarsson proppé skrifar
vísir
Vinna við tillögu um að slíta formlega viðræðum við Evrópusambandið (ESB) er á lokametrunum í utanríkisráðuneytinu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður hún lögð fyrir ríkisstjórn á allra næstu fundum. Vegna kjördæmaviku fellur ríkisstjórnarfundur í dag niður og að öllum líkindum einnig á föstudag.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er ekki á landinu og verður ekki til viðtals fyrr en á fimmtudag.

Nokkur kurr hefur verið vegna tillögunnar, en ráðherra tilkynnti fyrir nokkru að hún væri væntanleg. Heimildarmenn Fréttablaðsins innan Sjálfstæðisflokksins hafa sumir hverjir talið litla nauðsyn á framlagningu hennar. Ljóst sé að hún muni taka tíma frá öðrum málum á Alþingi og tíminn til þingfrestunar sé naumur.

Af viðbrögðum Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, má ljóst vera að málið muni taka nokkurn tíma á þingi.

„Með tillögunni eru forystumenn Sjálfstæðisflokksins að svíkja beinar yfirlýsingar um að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um framhaldið. Þær voru margítrekaðar fyrir kosningar, en líka eftir, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók undir þetta að minnsta kosti í tvígang,“ segir Össur. Ef menn ætla að svíkja beinar yfirlýsingar um þetta verður því mætt með eldi og brennisteini.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×