Innlent

Tilfinnanlegur skortur er á dýralyfjum hérlendis

Svavar Hávarðsson skrifar
Sauðfjárbóluefnið Tribovax var ófáanlegt á versta tíma nú í vor og önnur sambærileg bóluefni hefur skort víða í Evrópu.
Sauðfjárbóluefnið Tribovax var ófáanlegt á versta tíma nú í vor og önnur sambærileg bóluefni hefur skort víða í Evrópu. vísir/stefán
Borið hefur á skorti á dýralyfjum hér á landi að undanförnu. Ástandið hefur verið sérstaklega slæmt varðandi sýklalyf og hafa komið tímabil þar sem sýklalyf til notkunar handa dýrum hafa verið af mjög skornum skammti.

Þetta kemur fram hjá Matvælastofnun. Staðan hefur komið upp áður og því um þekkt vandamál að ræða sem kemur illa niður á heilbrigði og velferð dýra auk þess sem það veldur bændum búsifjum. Bændur og dýralæknar eru áhyggjufullir vegna ástandsins.

Í fyrirspurnum til Matvælastofnunar hafa fyrirspyrjendur jafnvel talið að skortinn nú megi rekja til herts eftirlits stofnunarinnar með ávísunum dýralækna á sýklalyf til sauðfjárbænda. Rétt er að Matvælastofnun hefur hert eftirlit með notkun sýklalyfja í dýr en það hefur ekki haft áhrif á framboð á dýralyfjum í landinu. Skýringar á lyfjaskortinum nú eru helstar að erlendis er skortur á virkum efnum í dýralyf þar sem verksmiðjur sem framleiða virku efnin hafa glímt við erfiðleika í framleiðslunni.

Lyfjaskortur er ekki séríslenskt vandamál heldur alþjóðlegt. Lyfjastofnun hefur beitt sér fyrir að fjölga skráðum dýralyfjum hér á landi meðal annars til að reyna að minnka hættu á lyfjaskorti.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×