Sport

Þuríður Erla á nú öll Íslandsmetin í tveimur þyngdarflokkum eftir metahelgi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þuríður Erla Helgadóttir.
Þuríður Erla Helgadóttir. Vísir/Anton
Þuríður Erla Helgadóttir var í miklum ham á Íslandsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Mosfellsbæ um helgina og setti þrjú glæsileg Íslandsmet.

Þuríður Erla lyfti 84 kílóum í snörun og 106 kílóum í Jafnhendingu. Hún lyfti því 190 kílóum samanlagt. Allt þetta voru ný Íslandsmet í -63 kílóa flokki en hún tvíbætti Íslandsmetið í samanlögðu.

Þuríður Erla átti einnig þess Íslandsmet í -58 kílóa flokki og á nú öll Íslandsmetin í tveimur þyngdarflokkum.

Crossfit tímabilið er að hefjast og það verður athyglisvert að fylgjast með Þuríður Erlu þar.

Þuríður Erla lyfti fyrst 77 kílóum í fyrstu lyftu í snörun, svo 81 kíló og loks 84 kílóum. Í jafnhendingunni lyfti hún fyrst 101 kílói og svo 106 kílóum en tókst síðan ekki að fara upp með 107 kílóin.

Þuríður Erla Helgadóttir fékk alls 260,1 Sinclair stig sem var það langbesta hjá konu á mótinu. Sinclair stigin eru reiknuð út frá þyngd keppenda.

Aníta Líf Aradóttir, sem varð önnur í -63 kílóa flokknum fékk næstmest eða 232,3 Sinclair stig. Í þriðja sæti var síðan Viktoría Rós Guðmundsdóttir með 206,5 Sinclair stig.

Lilja Lind Helgadóttir, sem vann -69 kílóa flokkinn, varð fjórða með 201,7 Sinclair stig.

Andri Gunnarsson setti þrjú Íslandsmet í 105+ kílóa flokknum en hann lyfti 160 í snörun og 190 kílóum í jafnhendingu sem þýðir að hann fór upp með 350 kíló samanlagt. Andri fékk 360,9 Sinclair stig sem var það mesta. Annar var Einar Ingi Jónsson með 330,4 Sinclair stig og Daníel Róbertsson varð þriðji með 321 Sinclair stig.

Það er hægt að sjá öll úrslitin með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×