Innlent

Þurfti að borga 75 þúsund í tryggingu til að fá hjólastól

Erla Hlynsdóttir skrifar
Kona með taugasjúkdóm gagnrýnir að hún hafi þurft að gangast í 75 þúsund króna ábyrgð til að fá lánaðan hjólastól í Kringlunni. Ástæðan fyrir tryggingagjaldinu er að hjólastólum í Kringlunni hefur ítrekað verið stolið.

Steinunn Þóra Árnadóttir er með taugasjúkdóminn MS og er mjög mikill dagamunur á henni. Hún notar almennt ekki hjólastól en þolir illa langar göngur, og langar verslunarferðir.

Hún útskrifaðist nýverið með meistaragráðu í fötlunarfræðum, en ritgerðin hennar fjallaði einmitt um aðgengi fólks í hjólastól að samfélaginu, og er henni málið því hugleikið.

„Þarna fór ég bara í Kringluna með mína hækju en sleppti því að taka með mér hjólastól. Svo, eins og vill stundum gerast, dróst ferðin á langinn og eftir að hafa farið í svolítið margar búiðir var ég orðin mjög þreytt," segir Steinunn Þóra.

Hún settist þá niður á kaffihúsi og móðir hennar fór að þjónustuborði Kringlunnar til að sækja hjólastól.

„En þá kom í ljós að til þess að fá lánaðan hjólastól, þá þarf maður að gangast í ábyrgð fyrir 75 þúsund króna tryggingu. Okkur fannst það nú svona heldur mikið."

Fólk getur valið um að leggja fram fimm þúsund krónur í reiðufé. Ef það er ekki til staðar þarf fólk að vera með kreditkort sem er straujað á gamla mátann og kvittun fyrir 75 þúsund krónum haldið eftir, en hún rifin þegar stól er skilað.

„Og jafnvel þó það séu aldrei teknar út þessar 75 þúsund krónur, þá ef maður setur þetta í samhengi þá fæ ég útborgaðar örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins 210 þúsund krónur mánðarlega, og þetta er þriðjungur af þeirri upphæð."

Framkvæmdastjóri Kringlunnar segir í samtali við fréttastofu að ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi sé að það hafi ítrekað komið fyrir að fólk hreinlega steli hjólastólunum.

Fréttastofa hafði samband við Smáralind og þar þarf ekki að leggja fram tryggingafé.

Steinunn segir að hún hefði verslað ívið meira ef hún hefði fengið hjólastól.

„Ætli ég hefði ekki verið í Kringlunni talsvert lengur og farið í fleiri búðir og verslað meira."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×