Handbolti

Þrjú mörk frá Aroni í stórsigri

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron skoraði þrjú fyrir Kiel.
Aron skoraði þrjú fyrir Kiel. vísir/getty
Kiel átti í engum vandræðum með HC Erlangen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Kiel vann að lokum 14 marka sigur, 36-22, og endurheimti þar með toppsætið.

Kiel byrjaði af miklum krafti og komst meðal annars í 9-3, 14-3, og 19-8, allt í fyrri hálfleik. Staðan var 22-10, Kiel í vil, í hálfleik.

Þeir héldu svo uppteknum hætti í síðari hálfleik og munurinn varð að lokum fjórtán mörk, 36-22.

Ellefu leikmenn Kielar komust á blað, en markahæstir voru Filip Jicha og Steffen Weinhold með fimm mörk hvor. Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk úr sex skotum.

Nicolai Theilinger, Ole Rahmel og Jonas Thümmler skoruðu allir fjögur mörk fyrir Erlangen. Sigurbergur Sveinsson komst ekki á blað.

Kiel fór með sigrinum á toppinn, en Kiel og Rhein-Neckar Löwen eru með jafn mörg stig á toppi úrvalsdeildarinnar. Erlangen er í vandræðum, en þeir eru í átjánda sæti af nítján liðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×