Innlent

Þrjár konur til viðbótar ásaka Gunnar

Gunnar Þorsteinsson.
Gunnar Þorsteinsson.

Þrjár konur, til viðbótar við þær fimm sem þegar hafa stigið fram, munu á næstunni skila frá sér yfirlýsingum um kynferðislega áreitni Gunnar Þorsteinssonar í Krossinum í sinn garð. Gunnar hefur stigið til hliðar sem forstöðumaður á meðan það sem hann kallar gjörningaverður gengur yfir.

Fréttastofan hefur ekki séð þessar nýju ásakanir en hefur upplýsingar um að þær verði lagðar fram síðar í dag eða á morgun. Konurnar þrjár sem á bakvið þær standa ætla að koma fram undir nafni. Áður hafa fimm konur sent krossinum yfirlýsingar um að Gunnar Þorsteinsson hafi áreitt þær kynferðislega.

Stjórn Krossins ætlar að boða til safnaðarfundar þar sem kallað verður eftir sjónarmiðum um hvernig bregðast skuli við þessum ásökunum en Gunnar tilkynnti í gær að hann ætli að stíga til hliðar á meðan málið er til lykta leitt.

Krossinn stofnar fagráð

Sigurbjörg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Krossins og dóttir Gunnars Þorsteinssonar, segir í samtali við fréttastofu að málið hafi verið rætt á stjórnarfundi í gær og að þetta sé niðurstaðan. Stjórnin hefur rætt um að setja saman sérstakt fagráð utankomandi sérfræðinga til að fjalla um ásakanir þess efnis að Gunnar hafi áreitt fimm konur kynferðislega en sú hugmynd verður borin undir söfnuðinn áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið.

Á meðan þessu stendur mun Gunnar Þorsteinsson ekki gegna hlutverki forstöðumanns. Hann tilkynnti það á heimasíðu Krossins í gærkvöldi. Þar segir að þrátt fyrir þann stuðning sem hann segist hafi fengið á samkomu í gær fari hann þess á leit við stjórn safnaðarins að fá að stíga til hliðar sem forstöðumaður, a.m.k. tímabundið meðan þetta gjörningaveður gengur yfir eins og Gunnar orðar það. Í yfirlýsingu sinni biður Gunnar um skilning og umburðarlyndi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×