Skoðun

Þrír menn og króna

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir skrifar
Árið 2006 tókum við hjónin lán fyrir íbúð. Við áttum von á okkar fyrsta barni og fannst ábyrgðarlaust að vera ekki búin að festa rætur í fasteign áður en barnið kæmi. Við tókum lán upp á 18 milljónir sem stæði í dag í tæpum 27 milljónum eftir afborganir. Ákvörðun okkar um að taka lán færði nýja barninu ekki öryggi og festu, heldur gerði foreldrana að áhættufjárfestum. Íbúðina seldum við svo fyrir um ári fyrir 23 milljónir. Ef lánið hefði verið tekið í evruríki væru eftirstöðvarnar hins vegar um 15 milljónir og við værum 11 milljónum ríkari.

Eftir þessa reynslu er gremjulegt að fylgjast með stjórnmálamönnum tala um krónuna eins og hún sé bara unglingur í uppreisn. Þar eru fyrirferðamestir formennirnir Steingrímur J., Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð, sem telja að vandi krónunnar sé sú uppeldisstefna sem hefur verið notuð hingað til, en ekki sú staðreynd að myntin okkar er sú eina í öndunarvél í allri Evrópu.

Krónan í höndum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur þó aldrei verið fyrirmyndarbarn og féll gagnvart dönsku vinkonu sinni um 99,5% frá því þær skildu. Steingrímur J. hefur haft þrjú ár til að reyna að hemja krónuna en ekki tekist en þrátt fyrir allt blasir sú staðreynd við að lífvænleiki krónunnar er ekkert betri í dag en hann var í upphafi kjörtímabilsins.

Formennirnir þrír láta þó hvorki þessar né aðrar sögulegar staðreyndir trufla sannfæringu sína fyrir því að þrátt fyrir allt séu þeir og auðvitað bara þeir, hver um sig, sá pabbi sem getur skikkað krónubarnið til hlýðni.

Með fullri virðingu fyrir drengslegu sjálfstrausti þá geta stjórnmálamenn ekki lengur eytt tíma í að blaðra um óraunhæfar lausnir. Við áhættufjárfestar heimilanna höfum einfaldlega ekki efni á því. Ein raunhæf leið til framtíðar, sem margar þjóðir hafa valið, er að taka upp evru með aðild að ESB.

Í vikunni opnaði vefurinn lan.jaisland.is þar sem allir geta gert samanburð á húsnæðisláninu sínu á milli kjara á Íslandi og á evrusvæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×