Innlent

Þriggja ára fangelsi fyrir grófar líkamsárásir

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Maðurinn kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þegar málið var þar til umfjöllunar.
Maðurinn kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þegar málið var þar til umfjöllunar. Vísir/GVA
Tvítugur karlmaður, Þorlákur Ari Ágústsson, var í dag sakfelldur fyrir fjórar líkamsárásir og brot gegn valdstjórninni. Maðurinn á langan sakaferil að baki og var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi.

Sérstaklega var litið til þess að hann rauf skilorð með brotum sínum en 16 mánuðir af þriggja ára dómnum er vegna fyrri dóms sem var skilorðsbundinn.



Þorlákur viðurkenndi sök í tveimur árásum af fjórum en hann var sakfelldur fyrir þær allar. Dómur í málunum var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.



Meðal þess sem Þorlákur var ákærður fyrir var slá mann með kúbeini í höfuðið í Öskjuhlíð. Dómurinn taldi ekki sannað að hann hefði notað kúbein og var hann því sýknaður af því en sakfelldur fyrir að hafa hrint eða fleygt manninum út úr bifreið við Perluna. Sjálfur neitaði hann sök.



„Læknisskoðun á brotaþola staðfestir ekki að áhald eins og kúbein hafi valdið þeim áverkum er brotaþoli greindist með og verður það þar af leiðandi ekki talið sannað,“ segir í dómnum.



Þorlákur neitaði einnig að hafa slegið konu ítrekað í höfuðið með glerflösku fyrir utan skemmtistaðinn Park. Fjölmörg vitni voru leiddi fyrir dóminn sem bar öllum saman um að hann hafi slegið konuna ítrekað með glerflösku í höfuðið, þar sem hún lá í jörðinni, og á sama tíma veitt henni hnéspörk í læri.



Sérstaklega var horft til þess við ákvörðun refsingar að Þorlákur hefði fimm sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.



Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald hans en hann hefur setið í varðhaldið frá 8. október á síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×