Körfubolti

Þriðja tap kvennalandsliðsins í þremur leikjum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Helena brosmild, en hún hefur líklega ekki brosað eftir tapið í kvöld þrátt fyrir fínan leik hjá henni.
Helena brosmild, en hún hefur líklega ekki brosað eftir tapið í kvöld þrátt fyrir fínan leik hjá henni. vísir/getty
Ísland tapaði sínum þriðja leik í undankeppni fyrir EM kvenna í körfubolta, en í kvöld tapaði liðið fyrir Portúgal ytra, 68-56. Áður hafði liðið tapað fyrir Ungverjalandi og Slóvakíu og er á botni E-riðils.

Íslensku stúlkurnar byrjuðu vel og leiddu með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 14-11, en góður annar leikhluti gerði það að verkum að heimastúlkur í Portúgal leiddu í hálfleik með fjórum stigum, 29-25.

Portúgal spilaði virkilega vel í þriðja leikhluta og var 43-34 yfir þegar síðasti leikhlutinn rann í garð. Þar sigldu heimastúlkur nokkuð öruggum sigri í hús og lokatölur tólf stiga sigur, 68-56.

Helena Sverrisdóttir var sem fyrr stigahæst hjá íslenska liðinu en hún skoraði 17 stig, tók 12 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði tólf stig, en Ísland mætir Ungverjalandi á miðvikudaginn.

Okkar stúlkur spiluðu í búningum frá félagsliði í Portúgal, Illiab­um, eftir að farangur stelpnanna hafði ekki skilað sér rétta leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×