Körfubolti

Þrenna frá Westbrook og meistararnir einum tapleik frá sumarfríi | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
NBA-meistarar Golden State Warriors eru heldur betur komnir með bakið upp við vegg en Oklahoma City Thunder gerði sér lítið fyrir og vann fjórða leik liðanna á heimavelli í nótt, 118-94, í úrslitarimmu vesturdeildarinnar.

Staðan í rimmunni er 3-1 fyrir Oklahoma City sem þarf nú aðeins einn sigur til að komast í lokaúrslitin þar sem liðið getur orðið NBA-meistari í fyrsta sinn.

Russell Westbrook fór á kostum í nótt en hann hlóð í þrennu gegn meisturunum og skoraði 36 stig, tók ellefu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Kevin Durant bætti við 26 stigum og tók ellefu fráköst.

Steph Curry var stigahæstur Golden State með 26 stig og Klay Thompson skoraði 19 stig. Draymond Green skoraði sex stig og tók ellefu fráköst.

Oklahoma City fær tækifæri til að senda meistarana í sumarfrí þegar liðin mætast næst í Oakland.

Í spilaranum hér að ofan má sjá Westbrook fara hamförum en hér að neðan má sjá brot úr leiknum í draugsýn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×