Innlent

Þrengja hringinn í rannsókn á trúðafaraldrinum

Birgir Olgeirsson skrifar
Áætlað að lögreglan ræði við nokkra sem grunaðir eru um þessa trúðahrekki.
Áætlað að lögreglan ræði við nokkra sem grunaðir eru um þessa trúðahrekki. Vísir/Getty
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur þrengt hringinn allverulega í rannsókn sinni á trúðafaraldrinum svokallaða. Einhverjir óprúttnir aðilar gerðu sér það að leik um liðna helgi að setja á sig ógnvekjandi trúðagrímur og fóru um Grafarvoginn hrellandi börn og fullorðna.

Tilkynningar um slíka hegðun bárust lögreglu en síðastliðið mánudagskvöld barst svo tilkynning úr Mosfellsbæ þar sem manneskja í trúðagervi reyndi að hrella íbúa Skálatúnsheimilisins í Mosfellsbæ, en þar búa einstaklingar með þroskahömlun.

Grunur lögreglu beindist fljótlega að piltum á grunnskólaaldri, sem eru í efstu bekkjum, en Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri lögreglustöðvarinnar á Vínlandsleið segir þá hafa fengið ábendingar um nokkra einstaklinga sem voru taldir líklegir að hafa stundað þetta og var áætlað að ræða við þá ásamt foreldrum þeirra.

Í Grafarvogi bönkuðu trúðarnir á glugga og biðu eftir því að húsráðendur myndu athuga málið. Þegar húsráðendur nálguðust gluggann blasti við þeim ófrýnilegt trúðsandlit sem stóð fyrir utan í kolniðamyrkri og varð mörgum bilt við. Þá voru einnig sagðar fregnir af því að þessir trúðar hefðu hrætt börn sem voru að leik í hverfinu.

Í Mosfellsbæ var svipað upp á teningnum, þar bankaði trúður á glugga íbúðar eins íbúa á sambýlinu. Það var hins vegar starfsmaður sem dró frá gardínurnar og sá trúðinn og brá í brún. Forstöðumaður á sambýlinu þakkaði fyrir að enginn af íbúunum sá trúðinn því það hefði lagst afar þungt á þá andlega.

Fjallað var fyrst um trúðafaraldurinn á vef Vísis á mánudag en þar var rakið hvert upphaf þessa æðis er, en forvitnir geta fræðst um það betur með því að smella hér.

Í stuttu máli hefur trúðafaraldur farið yfir heiminn á síðustu þremur mánuðum með miklum öfgum, og virðist hann vera að skjóta rótum hér á landi.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun Vice um þennan alþjóðlega trúðafaraldur:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×