Íslenski boltinn

Þrándur Sig: Valsmenn ætluðu örugglega að láta finna fyrir sér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Elís hefur farið á kostum í sumar.
Aron Elís hefur farið á kostum í sumar. Vísir/Andri Marinó
„Ég tel litlar líkur á því að hann spili á fimmtudaginn,“ segir Þrándur Sigurðsson, fyrrverandi leikmaður karlaliðs Víkings í knattspyrnu og faðir Arons Elís Þrándarsonar, framherja Víkings. Aron Elís fór sem kunnugt er meiddur af velli í fyrri hálfleik í 1-1 jafntefli Víkings við Valsmenn í Fossvoginum í kvöld.

Aron lá útaf með fótinn upp í loft og kælipoka á fætinum þegar blaðamaður ræddi við Þránd föður hans í kvöld. Aron var þá kominn heim af slysasdeild þar sem fékkst staðfest að hann væri ekki brotinn. Aron er meiddur rétt fyrir ofan hásinina á hægri fæti.

„Vonandi jafnar hann sig fljótt. Hann er allavega ekki brotinn,“ segir Þrándur. Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkinga, sakaði Valsmenn um fautaskap en Magnús Gylfason, þjálfari Vals, hafnaði því að lagt hefði verið upp með að sparka Aron Elís niður.

Þrándur átti aldrei þessu vant ekki heimangengt í Víkina í kvöldHann hafði þó heyrt af umræðunni en taldi ólíklegt að leikmenn Vals hefðu vísvitandi ætlað að sparka Aron Elís út úr leiknum.

„Minnugir síðasta leiks gegn Víkingi, þegar þeir réðu lítið við hann, ætluðu þeir samt örugglega að stoppa hann og láta hann finna fyrir sér,“ segir Þrándur. Aron Elís skoraði þá bæði mörkin í 2-1 sigri Víkinga og átti stórkostlegan leik eins og fjallað var um á Vísi.

„Leikurinn á Vodafone-vellinum í kvöld staðfesti það sem flestir vissu: að Aron Elís Þrándarson er frábær í fótbolta - leikmaður sem skilur á milli í jöfnum leikjum eins og þessum,“ sagði í umfjöllun Vísis.

Víkingur tekur á móti Stjörnunni í Víkinni á fimmtudaginn. Þrándur reiknar sem fyrr segir ekki með syni sínum í þann leik en vonandi í útileikinn gegn Blikum sunnudaginn 21. september.


Tengdar fréttir

Ólafur: Hefði viljað sjá tvo Valsara fara út af

Ólafur Þórðarson þjálfari Víkings var allt annað en sáttur við þá meðferð sem Aron Elís Þrándarson fékk hjá Valsmönnum í 1-1 jafntefli liðanna í kvöld í Pepsí deild karla í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×