Skoðun

Þorskar á þurru landi?

Í nýlegri grein í The New York Times er haft eftir Andra Snæ Magnasyni rithöfundi að á Íslandi séu engar rústir eða víkingaskip til að sanna með hvaða hætti Íslendingar hafi numið land. Vegna þess, segir hann, dregur fólk þá ályktun að Íslendingar séu komnir af þorskum. Andri Snær bætir því svo við að Íslendingar hafi alltaf kynnt sig sem þjóð sem segir sögur og að sögur hafi, fram að komu Bjarkar Guðmundsdóttur, verið eina framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar.

Eftir lestur á þessum orðum vakna ýmsar spurningar. Ef það eru engar rústir á Íslandi, hvert er þá hlutverk Minjastofnunar Íslands sem starfar eftir lögum um menningarminjar? Er verið að setja lög á Alþingi um lygavef að hér á landi séu fornleifar, eins og leifar af mannvirkjum, rústum? Og hvert hefur verið hlutverk Þjóðminjasafns Íslands í rúmlega 150 ár? Hafa starfsmenn safnsins verið að vinna við að spinna lygar í störfum sínum s.s. þegar þeir eru að skrifa um rústir á síðum Árbókar Hins íslenska fornleifafélags frá árinu 1881 til dagsins í dag? Á undanförnum áratugum hafa tugir ef ekki hundruð fornleifafræðinga verið að grafa í rústir hér á landi og fundið þúsundir ef ekki tugþúsundir gripa. Eru þessir fræðingar að grafa í eitthvað sem er ekki til staðar?

Orð Andra Snæs um framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar, er einnig tilefni til spurninga. Hver er þessi heimsmenning sem Andri Snær er að tala um? Frá hvaða sjónarhóli er hann að tala? Getur verið að orð Andra Snæs eigi ættir að rekja til yfirlætislegra sjónarmiða efri stétta í Evrópu, sem gerðu sér sérstakt far um að gera lítið úr flestu sem þær höfðu ekki hugsað eða gert sjálfar? Sú spurning vaknar einnig af orðum Andra Snæs hvort þúsundir Íslendinga, sem byggt hafa upp söfnin í landinu með gjöfum eða vinnu sinni, hafi ekki verið að leggja sitt af mörkum til heimsmenningarinnar? Ef heimsmenninguna er eingöngu að finna á erlendum söfnum, eru þá minjar og listaverk frá Íslandi, sem þar eru varðveitt, eins og hvert annað rusl, sem hefur ekkert gildi? Er endurheimt Þjóðminjasafns Íslands á efnislegum minjum frá söfnum í Danmörku og Svíþjóð síðastliðna áratugi kannski sönnun þess að framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar er ekki neitt?

Það þarf ekki að koma á óvart, en við lestur á orðum Andra Snæs, koma upp í hugann aldagamlar lygasögur af Íslendingum og lifnaðarháttum þeirra. Margir hafa kokgleypt þessar sögur og hefur það rekið suma Íslendinga til þess að að malda í móinn í gegnum tíðina. Líklegast er bók Arngríms Jónssonar, Crymogæa, einna þekktast af þeim varnarritum. Bókin kom út 1609 og var ætlað að leiðrétta lygasögur um að á Íslandi væri fólk eins og þorskar á þurru landi.




Skoðun

Sjá meira


×