Handbolti

Þórir og Wilbek eru bestu handboltaþjálfarar heims - Alfreð í 3. sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. Mynd/AFP
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta og Ulrik Wilbek, þjálfari danska karlalandsliðsins í handbolta eru bestu handboltaþjálfarar heims í ár en niðurstaðan úr kosningu Alþjóða handboltasambandsins var tilkynnt í dag. Alfreð Gíslason þótti þriðji besti karlaþjálfarinn.

Handboltaáhugamenn, fjölmiðlamenn og sérfræðingahópur IHF stóðu eins og áður að þessu árlega kjöri. Þetta er í fyrsta sinn sem þeir Þórir og Wilbek fá þessi verðlaun.

Þórir Hergeirsson hefur unnið öll þrjú stórmótinu á síðustu tuttugu mánuðum og gerði norksa kvennalandsliðið að Ólympíumeisturum á dögunum. Hann fékk 32 prósent atkvæða en i næstu sætum voru Morten Soubak, þjálfari Brasilíu og Olivier Krumbholz, þjálfari Frakklands sem báðir fengu 23 prósent atkvæða.

Ulrik Wilbek gerði Dani að Evrópumeisturum í upphafi ársins en liðið datt út úr átta liða úrslitunum á Ólympíuleikunum í London. Wilbek fékk 34 prósent atkvæða en í öðru sæti var Claude Onesta, þjálfari Ólympíumeistara Frakka með 27 prósent. Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, varð í 3. sæti með 13 prósent ásamt þeim Valero Rivera, þjálfara Spánar og Eduardo Gallardo, þjálfara Argentínu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×