Viðskipti innlent

Þórarinn: „Milljón dollara spurningin“

Magnús Halldórsson skrifar
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.
Stýrivextir hafa hækkað um nærri tvö prósentustig á rúmlega einu ári og eru nú sex prósent, en aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands segir að á meðan verðbólgan sé langt fyrir ofan verðbólgumarkmið þá verði vextir einnig háir.

Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans og Már Guðmundsson seðlabankastjóri kynntu ákvörðun Peningastefnunefndar um að hækka vexta bankans um 0,25 prósentustig í morgun.

Líkt og oft áður er það verðbólgan sem er að reynast íslensku efnahagslífi erfið. Stýrivextir Seðlabankans hafa hækkað nokkuð ört af þessum sökum, en 23. ágúst í fyrra voru þeir 4,25 prósent en í dag eru þeir 6 prósent.

Í Peningamálum Seðlabankans, sem komu út í dag, er fjallað ítarlega um stöðu efnahagsmála, og undirliggjandi ástæður fyrir hækkun vaxta.

Verðbólgan er enn yfir 2,5 prósent markmiði seðlabankans, en í október mældist hún 4,2 prósent á ársgrundvelli. Spá seðlabankans gerir ráð fyrir að markmiðið náist árið 2014. Þá er gert ráð fyrir minni hagvexti á þessu ári en fyrri spár gerðu ráð fyrir, eða 2,5 prósent, en á næsta ári gerir spá bankans ráð fyrir þrjú prósent hagvexti.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir að verðbólgan sé enn of há hér á landi miðað við víðast hvar annars staðar í heiminum, og því sé vaxtastigið að sama skapi hærra, en óvissa sé ávallt fyrir hendi þegar kemur að gengi krónunnar.

Sp. blm. Einhverjir spyrja sig kannski að því hvort hærri vextir fari ekki beint út í fjármagnskostnað, og þaðan út í verðlagið. Er hækkun vaxta eitthvað að slá á verðbólgu?

„Þetta er auðvitað milljón dollara spurningin. Til þess að geta verið viss, þyrftum við að vita hvað hefði gerst ef við hefðum ekki hækkað vexti, en við höfum ekki svarið við því. Rannsóknir og reynsla frá öðrum löndum segir hins vegar að vextir slá á verðbólgu, og það er erfitt að sjá hvers vegna staðan ætti að vera önnur hér," segir Þórarinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×