Innlent

Þjóðleikhússtjóri: „Þetta var bara ósköp venjuleg útleiga“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ari segir að engin stuðningsyfirlýsing felist í fyrirkomulaginu.
Ari segir að engin stuðningsyfirlýsing felist í fyrirkomulaginu. vísir/skjámynd/vilhelm/arnþór
„Þetta var bara ósköp venjuleg útleiga. Stuðningsmenn Andra Snæs óskuðu eftir því að fá Þjóðleikhúsið leigt undir viðburðinn og það vildi svo til að það var hægt að verða við þeirri bón á þessum tíma,“ segir Ari Matthíasson, Þjóðleikhússtjóri, í samtali við Vísi.

Hér má sjá tístin sem birtsust á síðu Þjóðleikhússins.
Rithöfundurinn Andri Snær Magnason kynnti fyrr í dag framboð sitt til forseta Íslands en kynningarfundurinn átti sér stað á stóra sviði Þjóðleikhússins. Því hefur verið velt upp hvort Þjóðleikhúsið sé með þessu að taka afstöðu með Andra umfram aðra forsetaframbjóðendur en auk þess að hýsa fundinn var tíst um hann á Twitter-síðu leikhússins. Aðspurður um tístin segir Ari að hann þekki þau ekki. 

Þjóðleikhúsið er ríkisstofnun en um það er fjallað í leiklistarlögum. Þar segir meðal annars að „[þ]egar Þjóðleikhússbyggingin er ekki notuð til reglubundinnar starfssemi samkvæmt þessum lögum má nota hana til annarrar menningarstarfssemi.“

„Þjóðleikhúsið er hægt að leigja sé því viðkomandi vegna annarar starfsemi í húsinu. Það hefur verið hægt árum saman svo það er ekkert undarlegt við þetta,“ segir Ari. Hann rifjar meðal annars upp eftirminnilegan fund Samfylkingarinnar, á tímum hrunsins, sem haldinn var í Þjóðleikhússkjallaranum. Þá hafi það á dögunum leigt út sal til að hægt væri að halda upp á 100 ára afmæli Ölgerðarinnar. „Erum við með því að taka afstöðu gegn Vífilfelli?“

Ari segir að það séu aldrei sýningar í húsinu á mánudögum og það hafi hitt svo á í dag að ekki hafi verið æfing á stóra sviðinu. Hann segir að öðrum forsetaframbjóðendum, sem og öðrum, standi til boða að leigja sali af leikhúsinu séu salirnir lausir á þeim tíma sem óskað er eftir. Verð er mismunandi og fer eftir hvort, og þá hve margir, starfsmenn þurfa að fylgja með leigunni. 

„Ég fagna hvers konar fundum og starfsemi þegar salirnir eru lausir. Það er bara búbót fyrir Þjóðleikhúsið,“ segir Ari. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×