Erlent

Þjóðernissinninn Hofer tapaði í forsetakosningunum í Austurríki

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hofer var mótmælt í höfuðborg Austurríkis, Vín, í gær.
Hofer var mótmælt í höfuðborg Austurríkis, Vín, í gær. Vísir/EPA
Norbert Hofer, leiðtogi Frelsisflokksins í Austurríki sem er yst á hægri væng stjórnmálanna þar í landi, hefur játað sig sigraðan í austurrísku forsetakosningunum sem fram fóru í dag.

BBC greinir frá þessu en Hofer tilkynnti um ósigur sinn á Facebook-síðu sinni fyrir stundu. Þar segist hann vera mjög leiður yfir úrslitunum en óskar þó Alexander Van der Bellen, fyrrverandi leiðtoga Græningja, til hamingju með sigurinn.

Forsetakosningar fóru fram í Austurríki í maí síðastliðnum en þær voru úrskurðaðar ógildar af hæstarétti landsins þar sem talið var að kosningalög hefðu verið brotin. Þá hafði Van der Bellen nauman sigur en samkvæmt útgönguspám nú er hann með 53 prósent atkvæða en Hofer 46 prósent.

Kosningarnar í Austurríki í dag eru af mörgum stjórnmálaskýrendum talinn prófsteinn á fylgi þjóðernissinna í Evrópu enda byggði Hofer kosningabaráttu sína mikið á orðræðu sem snerist um að færa venjulegum Austurríkismönnum landið þeirra aftur og þar með úr greipum innflytjenda sem búa í landinu. Þá hafði hann einnig viðrað hugmyndir þess efnis að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru Austurríkis í Evrópusambandinu.

Það má því leiða líkur að því að leiðtogar annarra Evrópusambandsríkja andi nú léttar eftir að úrslitin í kosningunum eru ljós, þrátt fyrir að embætti forseta Austurríkis sé í raun aðeins táknrænt og hann hafi í raun svipað hlutverk og forseti Íslands.

Á næsta ári mun þó enn reyna á fylgi þjóðernissinna í álfunni þegar Frakkar, Hollendingar og Þjóðverjar ganga að kjörborðinu en í öllum þessum löndum eru stjórnmálaflokkar yst á hægri vængnum að sækja í sig í veðrið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×