Skoðun

Þjóðarsátt um skuldir

Þjóðarsátt er orð sem oft hefur verið notað á síðustu mánuðum og ekki að ástæðulausu. Eftir hrunið eru margir ósáttir enda hefur hallað á fjölda fólks og því er þörf á þjóðarsátt.

Nú hefur Hæstiréttur kaghýtt lánafyrirtæki með dómi sínum um gengistryggð lán. Í framhaldi af þessu hafa Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn komið með leiðbeinandi vinnulag um breytt greiðslufyrirkomulag lánanna. Og allt logar nú út af þessum „leiðbeinandi" gerningi.

Ég er viss um að flestir sem tóku gengislánin hafi alls ekki hugsað sér að þurfa að greiða eins mikið og þeir hafa verið krafðir um. Ég er líka viss um að þeir hafi ekki heldur reiknað með að greiða jafnlítið og dómurinn kveður á um. Samt eru margir skuldarar ófúsir að hvika frá dómi Hæstaréttar og sjá enga ástæðu til koma til móts við lánafyrirtækin eftir þá óbilgirni sem að minnsta kosti einhver þeirra hafa sýnt og á tíðum fyrirlitleg vinnubrögð sem fréttir hafa greint frá.

Fram undan er löng og ströng umræða og málaferli á málaferli ofan. Ríkisstjórnin er farin að gefa í skyn að samfélagið ráði illa við niðurstöðu dómsins og þess vegna hafi Seðlabankinn og FME brugðist svona við. Og auðvitað vekur það manni ugg ef sækja þarf meiri pening til ríkiskassans, með mikilli hættu á því að teygja velferðarkerfisins slitni.

Þess vegna spyr ég: Getum við búið til einhvers konar þjóðarsátt um skuldirnar. Geta skuldarar þessa lands fallist á það að öll lán til húsnæðiskaupa og bílakaupa verði aðeins einnar gerðar með lagasetningu? Væri til dæmis hægt að lækka verðbótalánin og hækka gengislánin á einhvers konar miðlínu sem dregin er á milli verðtryggðu lánanna og gengislánanna eftir dóm Hæstaréttar.

Þau átök og endalausu málaferli sem framundan eru um öll þessi lán geta orðið að ógn við allsherjarreglu og frið í samfélagi okkar.

Ég hvet til þess að leitað verði sátta og samkomulags í mikilli einlægni og að Alþingi og ríkisstjórn geri sitt til þess að vinna að því í góðu samráði við þau samtök sem stofnuð hafa verið til varnar heimilum og skuldurum þessa lands. Já, mikið held ég að margir yrðu fegnir ef hægt væri að klára þetta mál með ásættanlegri og viðráðanlegri lausn sem áreiðanlega er til. Að við gætum gert alvöru þjóðarsátt í þessu máli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×