Innlent

Þingmaður vill taka upp styrki í námslánakerfinu

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Samkvæmt lögum um lánasjóð íslenskra námsmanna falla endurgreiðslur námslána sjálfkrafa niður eftir að lánþegi andast og því ljóst að ríkissjóður fær ekki í öllum tilvikum lán endurgreitt. Endurgreiðslur námslána voru til umræðu hjá fjárlaganefnd alþingis í gær en þar koma fram að þrír íslenskir námsmenn skulda meira en 30 milljónir króna hver í námslán, en þeir eru allir enn í námi.

Karl Garðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir vera kominn tími til að breyta námslánakerfinu. „Mér finnst þetta kerfi mjög óeðlilegt. Það er að segja það eru ákveðnir hvatar þess efnis að taka sem mest námslán, þar sem það þarf þá ekki að borga nema hluta til baka.

Karl segist þeirrar skoðunar að það eigi að breyta kerfinu þannig að þetta verði sambland af námslánum og styrkjum, það er að segja að þegar námsmenn ljúki námi þá fái þeir niðurfelld hluta sinna námslána í formi styrkja.“

Hvernig ætlar þú að beita þér í þessu máli? Kemur þú til með að leggja fram þingsályktun eða lagafrumvarp?

„Mér finnst eðlilegt að menntamálaráðherra fari yfir þessi mál og komi með tillögur. Ef hann gerir það ekki finnst mér sjálfsagt að gera það,“ segir Karl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×