Innlent

Þetta eru mennirnir sem rændu bankann

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Líkt og sjá má á myndinni er annar þeirra með skammbyssu og hinn með hníf.
Líkt og sjá má á myndinni er annar þeirra með skammbyssu og hinn með hníf.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt myndir af mönnunum tveimur sem frömdu vopnað rán í útibúi Landsbankans í Borgartúni á öðrum tímanum í dag. Líkt og sjá má á myndunum er annar þeirra vopnaður hnífi og hinn skammbyssu.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að mennirnir hafi komið að útibúinu á stolinni, hvítri sendibifreið, Ford Transit, með skráninganúmerinu VDZ 53, en bíllinn fannst skömmu síðar í Barmahlíð í Reykjavík.

Óveruleg upphæð

Í tilkynningu á vef Landsbankans kemur fram að mennirnir hafi haft í hótunum við starfsfólkið og krafist fjármuna . Þeir hafi tekið einhverja fjármuni með sér en upphæðin sé óveruleg.

„Enginn meiddist sem er fyrir mestu og starfsfólk brást rétt við í erfiðum aðstæðum. Starfsfólki og viðskiptavinum í Borgartúni var að sjálfsögðu mjög brugðið og öllum verður boðin áfallahjálp. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú málið.

Útibúinu í Borgartúni hefur verið lokað frá því atvikið varð og það verður einnig lokað á morgun, gamlársdag.“

Bíllinn sem mennirnir flúðu á fannst í Barmahlíð.Vísir/Pjetur
Óska aðstoðar almennings

Lögregla biður þá sem geta veitt upplýsingar um málið að hafa tafarlaust samband við lögreglu í síma 112. Fólki er bent á að hafa ekki afskipti af mönnunum.

Upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið bjarni.olafur@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ógnuðu starfsfólki

Samkvæmt heimildum fréttastofu ógnuðu mennirnir starfsmönnum bankans, hristu einn þeirra og öskruðu „Þetta er rán“. 

Enn er unnið að því að taka skýrslur af viðskiptavinum bankans. Flestir hafa þó fengið að snúa til síns heima. Lögregla er með töluverðan viðbúnað í Borgartúni og búið er að auka öryggisgæslu í öðrum útibúum bankans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×