Fótbolti

Þetta er ástæðan fyrir því að allir vilja fara í vítakeppni á móti Englandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Pirlo skorar gegn Joe Hart í vítaspyrnukeppni á EM 2012.
Andrea Pirlo skorar gegn Joe Hart í vítaspyrnukeppni á EM 2012. vísir/afp
Englendingar þekkja það þjóða best að tapa í vítakeppni á stórmótum. Enska landsliðið hefur nefnilega sex sinnum dottið út á stórmóti eftir tap í vítakeppni, þrisvar sinnum á HM og þrisvar sinnum á EM.

Englendingar hafa aðeins unnið eina af sjö vítakeppnum sínum á stórmótum og sá sigur var á móti Spáni í átta liða úrslitum á EM 1996.

Síðan þá hefur enska liðið dottið út í vítakeppni í undanúrslitum á EM 1996, í sextán liða úrslitum á HM 1998, í átta liða úrslitum á EM 2004, í átta liða úrslitum á HM 2006 og í átta liða úrslitum á EM 2012 þegar enska liðið tapaði á móti Ítölum í vító.

Ensku leikmennirnir hafa alls klikkað á tólf vítaspyrnum í þessum sjö vítakeppnum og meðal þeirra eru Gareth Soutagte, Paul Ince, David Batty, David Beckham, Steven Gerrard og Jamie Carragher.

Jú, það er af nógu að taka þegar kemur að enskum skúrkum í vítakeppnum í gegnum tíðina. Hvort þeim fjölgi í kvöld verður hins vegar að koma í ljós.

Leikur Englands og Íslands fer fram á Riviera-vellinum í Nice og hefst klukkan 19.00 að íslenskum tíma. Hann verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Eggert: Við vinnum England í vító

Eggert Magnússon, fyrrum formaður KSÍ, hefur verið kaffærður með hamingjuóskum eftir velgengni íslenska liðsins á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×