Skoðun

Þeir leyna sem eiga að upplýsa – opið bréf til BÍ

Ragnhildur Sverrisdóttir skrifar
Blaðamannafélag Íslands starfrækir siðanefnd, sem veitir blaða- og fréttamönnum aðhald. Félagið sýnir þar með vilja til að tryggja að þeir, sem telja á sér brotið í fjölmiðlum á einhvern hátt, geti leitað réttar síns án þess að fara fyrir dómstóla.

Þrátt fyrir að hafa setið í stjórn Blaðamannafélagsins um tíma hafði ég ekki gert mér grein fyrir að reglur um störf siðanefndar væru jafn gallaðar og raun ber vitni. Í viðleitni til að benda félagi mínu til áratuga á þessa galla vil ég rekja feril máls sem var vísað til nefndarinnar fyrir skömmu.

Í kjölfar birtingar fréttar, þar sem ranglega var lesið úr rannsóknarskýrslu Alþingis, var leitað leiðréttingar hjá viðkomandi fjölmiðli. Eftir nokkur tölvupóstsamskipti viðurkenndu fréttastjóri og viðkomandi fréttamaður að farið hefði verið með rangt mál. Þeir töldu þó ekki ástæðu til leiðréttingar, þar sem rangfærslurnar hefðu ekki verið aðalatriði fréttarinnar.

Sá sem fréttin fjallaði m.a. um var ekki sama sinnis; taldi ályktanir sem dregnar höfðu verið af þessu ranga atriði meiðandi og sætti sig ekki við að vitleysan lifði í gagnasöfnum um aldur og ævi. Hann leitaði því til siðanefndar og lét fylgja með öll gögn um málið, þ. á m. tölvupóstana þar sem starfsmenn fjölmiðilsins viðurkenndu að hafa farið rangt með, en neituðu leiðréttingu.

Siðanefnd tók málið til meðferðar. Samkvæmt starfsreglum hennar kannar hún hæfi nefndarmanna. Einn þeirra vék réttilega sæti, svo mér sé kunnugt, enda tengdur starfsmanni hins kærða fjölmiðils fjölskylduböndum. Ekki virðist siðanefnd þó hafa haft efasemdir um setu annars nefndarmanns, sem hefur varið drjúgum tíma í það á bloggi sínu að reyna að sýna fram á að kærandi sé hvorki sannsögull né almennt nokkurs trausts verður.

Þar sem ég hafði tekið að mér að reka málið fyrir siðanefnd átti ég von á að verða kvödd fyrir siðanefndina, enda segir í vinnureglum hennar að hún skuli bjóða báðum aðilum máls að skýra mál sitt á fundum nefndarinnar. Hún skal einnig óska eftir skriflegri greinargerð beggja aðila.

Ég heyrði hins vegar fyrst frá siðanefnd þegar úrskurður hennar lá fyrir. Í honum kom fram að siðanefnd hefði borist greinargerð hinna kærðu. Lesa má úr úrskurðinum að siðanefnd hafi þótt nóg að gert af því að fjölmiðillinn hafði birt ódagsetta athugasemd á vef sínum. Í kærunni hafði þó komið skýrt fram, að engin leiðrétting hafði fengist á þeim tíma sem kæran var lögð fram. Er hugsanlegt að fréttin hafi ekki verið leiðrétt fyrr en málið hafði verið kært? Það upplýsir siðanefnd ekki – og tekur því ekki afstöðu til þeirrar ákvörðunar fjölmiðilsins að neita kæranda um leiðréttingu.

Þá telur siðanefnd það fjölmiðlinum til bóta, að nafn kæranda hafði ekki verið nefnt sérstaklega í hinni röngu tilvísun, heldur félag sem hann átti. Hafði þó, fyrr í þessari sömu frétt, verið tekið skýrt fram hver átti félagið og hefur aldrei verið launungarmál.

Í kjölfar úrskurðarins óskaði ég eftir að fá að sjá greinargerð kærðu. Siðanefnd hafnaði því, „enda tíðkast ekki að senda slík gögn út, auk þess sem málinu er lokið af hálfu siðanefndar“. Í kjölfarið leitaði ég beint til fjölmiðilsins, en fékk þau svör að ekki sæist ástæða til að afhenda greinargerðina og ég yrði að una niðurstöðu siðanefndar. Reglurnar þarf að endurskoðaMér er til efs að blaðamenn séu almennt sáttir við þessa málsmeðferð. Hún er ekki til þess fallin að auka trú á málefnalega og hlutlæga meðferð mála.

Hvers vegna tekur siðanefnd ekki á málum í samræmi við stöðuna þegar kært er, þ.e. eftir ítrekaða neitun fjölmiðils að birta leiðréttingu? Hvernig á sá sem kærir að átta sig á hvernig siðanefnd kemst að niðurstöðu sinni, ef hann fær ekki að sjá forsendur þeirrar niðurstöðu? Hvers vegna segir í vinnureglum siðanefndar að hún skuli bjóða aðilum máls að skýra mál sitt á fundum nefndarinnar ef það er mat hennar hverju sinni hvort það eigi að gera, byggt á því hvort hún telji mál nægilega upplýst samkvæmt gögnum, sem eru ekki báðum aðilum máls ljós?

Hér með óska ég eftir að stjórn Blaðamannafélags Íslands svari eftirfarandi spurningum:

1. Telur stjórn BÍ eðlilegt að siðanefnd félagsins taki að sér að túlka afdráttarlausar reglur um að hún skuli kalla málsaðila fyrir nefndina á þann veg að hún geri það aðeins þegar henni þykir ástæða til?

2. Telur stjórn BÍ eðlilegt að siðanefndarmaður, sem ítrekað hefur dregið heilindi málsaðila í efa á opinberum vettvangi, taki þátt í afgreiðslu máls?

3. Telur stjórn BÍ það þjóna tilgangi siðanefndar að málsgögn og forsendur úrskurðar nefndarinnar séu málsaðilum ekki aðgengileg, sem hefur í för með sér að niðurstaða nefndarinnar verður ávallt ógagnsæ?

Blaðamannafélagið brást snöfurmannlega við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og fjallaði ítarlega um hvernig fjölmiðlar gætu staðið sig betur í umfjöllun um þjóðfélagsmál. Það endurmat þyrfti einnig að ná til vinnubragða siðanefndar félagsins.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×