Skoðun

Það er betra að fæðast á kosningaári

Örn Úlfar Sævarsson skrifar
Fæðingarorlof feðra er ónýtt. Þetta vita allir nýbakaðir feður. Bæði pabbarnir sem hafa ekki nýtt sér þessi réttindi á liðnum árum og pabbarnir sem hafa tekið sénsinn á fjárhagslegu öryggi fjölskyldunnar til að njóta samverustunda við nýfætt krútt. Það fjölgar í fyrrnefnda hópnum því um leið og tekjurnar hrapa í orlofi bætist nefnilega við alls konar aukakostnaður vegna komu nýrrar mannveru í heiminn – ég tala nú ekki um ef það fjölskyldan þarf að stækka við sig. Hámarksorlof er nú 370 þúsund kall á mánuði, mínus skattur, mínus lífeyrissjóður og mínus stéttarfélagsgjöld (hæ, verkalýðshreyfing!). Dugar tvöhundruðþúsundkallinn sem eftir stendur fyrir leigunni?

Vinstri flokkarnir vita líka að kerfið er ónýtt enda voru það þeir sem hentu barninu út með baðvatninu á síðasta kjörtímabili – og pabbanum líka.

Fjármálaráðherra er klár á því að að fæðingarorlof feðra er ónýtt enda sagði hann í ræðu sinni á landsfundi sínum um daginn: „Ég tel að við verðum að hækka greiðslur í fæðingarorlofi myndarlega. Við viljum nefnilega búa vel að fjölskyldum með ung börn og svo ber líka að líta til þess yfirlýsta tilgangs laganna, að jafna stöðu kynjanna, en við sjáum að verulega hefur dregið, því miður, úr töku fæðingarorlofs meðal feðra.“ Því miður fyrir börn sem fæðast á næsta ári bætti hann við að þetta ætti ekki að gerast fyrr en „við fjárlagagerð ársins 2017 [Landsfundur klappar].“

Jafnrétti er því forgangsmál á fundum, ekki í fjárlögum. Á meðan drabbast kerfið áfram niður næstu misserin og staða kynjanna heldur áfram að skekkjast. Fæðingarorlof mæðra er reyndar svo efni í aðra grein. Í lokin er rétt að ráðleggja pörum sem vilja fjölga sér að halda aðeins í sér. Þau börn sem gengið er með núna og næstu mánuði fá nefnilega ekki sömu möguleika á samveru með föður sínum og þau sem fæðast 2017. Kosningaárið 2017.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×