Innlent

TF-GNÁ í tvö sjúkraflug á hálfum sólarhring

Stefán Ó. Jónsson skrifar
TF-Gná hefur átt í nógu að snúast síðastliðinn sólarhring.
TF-Gná hefur átt í nógu að snúast síðastliðinn sólarhring. Vísir/vilhelm
Mikið annríki hefur verið hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar en TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar, hefur farið í tvö sjúkraflug síðasta hálfa sólahringinn.

Í tilkynningu kemur fram að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafi rúmlega átta í gærkvöldi borist beiðni um þyrlu vegna alvarlega veiks einstaklings á Ísafirði. Veðuraðstæður voru slæmar og því ekki fært sjúkraflugvél Mýflugs sem fyrst hafði verið óskað eftir.

TF-GNÁ fór því á vettvang en á flugleið var töluverð ókyrrð, skyggni slæmt og þónokkur ísing. Lent var á Ísafirði þar sem sjúklingurinn var fluttur um borð í þyrluna en á vettvangi var jafnframt ákveðið að flytja annan sjúkling frá Ísafirði sem komast þurfti undir læknishendur í Reykjavík. Þyrlan hélt því af stað með tvo sjúklinga til Reykjavíkur þar sem lent var rétt eftir miðnætti.

Klukkan rúmlega sex í morgun barst svo stjórnstöð beiðni um þyrlu vegna veiks einstaklings í Stykkishólmi. Þyrlan fór í loftið um 06:30 og var komin á vettvang um tuttugu mínútum síðar. Sjúklingur hafði þá verið fluttur með sjúkrabíl í átt að Borgarfjarðarbrú til móts við þyrluna. Að sögn Landhelgisgælsunnar var umtalsverð skýjahæð og þoka  á leiðinni svo fljúga þurfti lágt meðfram ströndu en flugið gekk eftir sem áður vel. Lent var með sjúkling um tuttugu mínútur yfir sjö í morgun við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×