Innlent

Telur borgarmeirihlutann svara meiri umferðarþunga með hroka

Benedikt Bóas skrifar
Sérstaklega var spurt um hvað ætti að gera varðandi umferð einkabíla.
Sérstaklega var spurt um hvað ætti að gera varðandi umferð einkabíla. vísir/ernir
„Þetta svar kom mér á óvart og það óþægilega. Mér finnst það lýsa hroka meirihlutans gagnvart upplýsingabeiðni okkar í minnihlutanum,“ segir Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en flokkurinn fékk svar í umhverfis- og skipulagsráði á miðvikudag um hvernig takast eigi á við vaxandi umferðarþunga.

Halldór Halldórssonvísir/daníel
Svarið frá meirihlutanum var eitt A4 blað þar sem reifaðar voru allar áætlanir sem unnið er eftir. Fyrirspurnin var lögð fram í desember.

Áætlanirnar eru svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, Samgönguáætlun og aðalskipulag Reykjavíkur. Til viðbótar eru samningar sem borgin er aðili að eins og samkomulag um næstu skref Borgarlínunnar. Einnig við Vegagerðina um þróun stofnvegakerfisins, þróun stofnleiða hjólreiða, þróun almenningssamgangna og sjálfbæra samgönguáætlun og þá er í gildi samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um 10 ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna.

Þetta fannst Sjálfstæðisflokknum heldur þunnt og bókaði þakkir til meirihlutans fyrir þetta A4 blað.

„Þó verður að segjast að svar meirihlutans svarar engu efnislega um það sem spurt er um. Spurningin er um hvernig meirihlutinn hyggst takast á við vandamál sem er vaxandi í umferðarmálum borgarinnar. Bent er á samkomulag við önnur sveitarfélög, Vegagerð o.s.frv. Ábyrgðinni er vísað annað eins og í fleiri málum hjá meirihlutanum í borgarstjórn,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×