Íslenski boltinn

Tekur Aron við af Alfreð hjá Heerenveen?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Elís Þrándarson fer nú á kostum í Pepsi-deildinni.
Aron Elís Þrándarson fer nú á kostum í Pepsi-deildinni. Vísir/Pjetur
Aron Elís Þrándarson, leikmaður Víkings, er sá allra heitasti í Pepsi-deildinni þessa dagana, en þessi tvítugi spilari hefur borið sóknarleik nýliðanna á herðum sér undanfarnar vikur.

Frammistaða Arons hefur vakið athygli út fyrir landsteinana eins og kom fram í máli Magnúsar Agnars Magnússonar, umboðsmanns Arons, í fréttum Stöðvar 2 í vikunni.

Útsendarar nokkurra liða hafa komið hingað til lands til að fylgjast með Aroni Elís að undanförnu, stór hluti þeirra frá Skandinavíu, samkvæmt upplýsingum Vísis.

Heimildir Vísis herma ennfremur að njósnarar hollenska úrvalsdeildarliðsins Heerenveen hafi séð Aron í síðustu tveimur leikjum; gegn Val í Pepsi-deildinni sem Víkingur vann, 2-1, og gegn Fylki í bikarnum í gærkvöldi sem Víkingur vann, 5-1.

Aron Elís skoraði í báðum leikjum auk þess að leggja upp sigurmarkið gegn Val en hann var leikmaður umferðarinnar í Pepsi-mörkunum og í Fréttablaðinu fyrir frammistöðu sína á Hlíðarenda.

Alfreð Finnbogason er markahæsti leikmaður Heerenveen í deildinni frá upphafi.vísir/getty
Annar Íslendingur, Alfreð Finnbogason, er á útleið hjá Heerenveen og leitar liðið nú að arftaka hans. Hvort Aron Elís sé sá maður verður að koma í ljós en það virðist morgunljóst að er að spila sitt síðasta tímabil á Íslandi í bili.

Víkingar vonast til að geta haldið Aroni Elís út tímabilið þó það verði erfitt vegna félagaskiptagluggans sem lokar 1. september. Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings, var spurður eftir 5-1 sigurinn á Fylki í gær hvort hann teldi að Aron yrði allt tímabilið í Víkinni. „Já, ég hef trú á því. Ég vona það og trúi,“ sagði Ólafur Þórðarson.

Alfreð Finnbogason skoraði 24 mörk í 54 deildar- og bikarleikjum á Íslandi áður en hann var keyptur til Lokeren í Belgíu veturinn 2010. Hann sló í gegn sumarið 2009 þegar hann skoraði 15 mörk í 22 leikjum í deild og bikar og var kjörinn efnilegastur. Árið eftir skoraði hann 14 mörk í 21 deildarleik er Breiðablik vann titilinn.

Aron Elís lét fyrst vita af sér í Pepsi-deildinni 2011 þegar hann skoraði tvö mörk í óvæntum sigri fallins liðs Víkings gegn Breiðabliki í Pepsi-deildinni. Hann sló svo í gegn í 1. deildinni í fyrra þar sem hann skoraði 14 mörk í 14 leikjum og hjálpaði sínu liði upp um deild. Hann er nú búinn að skora fimm mörk í átta deildar- og bikarleikjum.


Tengdar fréttir

Tel mig hafa burði til þess að vera atvinnumaður

Aron Elís Þrándarson er kominn á góðan skrið eftir að hafa glímt við meiðsli í upphafi móts og átti stóran þátt í sigri nýliða Víkings á Val í þriðja sinn á þessu ári. Hann hefur vakið áhuga margra erlendra félaga.

Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Fylkir 5-1 | Martröð Fylkismanna í Fossvoginum

Víkingur flaug áfram í 16-liða úrslitum Borgungar-bikarsins í kvöld þegar liðið vann öruggan sigur á Fylkismönnum 5-1. Víkingar skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins þegar rúmlega tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum og hann í raun búinn. Fylkismenn náðu að minnka muninn í fyrri hálfleiknum en komust ekki lengra. Víkingar verða því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×