Fótbolti

Tekst Simeone loks að vinna á Nývangi?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Simeone bíður enn eftir sínum fyrsta sigri
Simeone bíður enn eftir sínum fyrsta sigri vísir/getty
Diego Simeone hefur náð ótrúlegum árangri með Atlético Madrid á undanförnum árum. Argentínumaðurinn bíður samt enn eftir sínum fyrsta sigri á Nývangi, heimavelli Barcelona.

Sú bið gæti tekið enda í kvöld þegar lærisveinar Simeones sækja meistarana heim í fyrsta stórleik tímabilsins á Spáni.

Þrátt fyrir að hafa ekki náð að vinna leik á Nývangi á Simeone góðar minningar frá vellinum en það var þar sem Atlético Madrid tryggði sér spænska meistaratitilinn árið 2014. Liðið gerði þá 1-1 jafntefli við Barcelona sem dugði til að vinna titilinn.

Liðin mættust tvisvar á Nývangi á síðasta tímabili. Báðir leikirnir fóru 2-1 fyrir Barcelona en Atlético Madrid missti samtals þrjá leikmenn út af með rauð spjöld í þessum tveimur leikjum.

Aðeins einu stigi munar á Barcelona og Atlético Madrid fyrir leikinn í kvöld. Börsungar eru í 3. sæti spænsku deildarinnar með níu stig en Madrídarliðið er í því fimmta með átta stig.

Simeone segir að Atlético Madrid bíði erfitt verkefni í kvöld, gegn því sem hann telur vera besta lið Spánar.

„Þeir halda áfram að spila stórkostlegan fótbolta og eru með einstaklinga sem gera gæfumuninn,“ sagði Simeone sem stytti samning sinn við Atlético Madrid um tvö ár á dögunum.

Leikur Barcelona og Atlético Madrid hefst klukkan 20:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×