Innlent

Tekist á um matarskattinn í ríkisstjórninni

Heimir Már Pétursson skrifar
Karl leggst gegn hækkun á virðisaukaskatti á matvæli.
Karl leggst gegn hækkun á virðisaukaskatti á matvæli. Vísir/Vilhelm
Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins leggst gegn hækkun virðisaukaskatts á matvæli við einföldun virðisaukaskattskerfisins og vill þess í stað fækka undanþágum með því t.d. að leggja skattinn á ferðaþjónustuna.

Í drögum að fjárlagafrumvarpi sem kynnt voru í  þingflokkum stjórnarflokkanna í gær er gert ráð fyrir breytingum á virðisaukaskattskerfinu þannig að skatturinn færi úr 7 prósentum á matvæli upp í tíu til fimmtán prósent.

„En ég er mjög andvígur þessum hugmyndum. Ég tel að menn séu að fara algerlega ranga leið með þessu og senda röng skilaboð út í þjóðfélagið. Það liggur fyrir að stór hluti af ráðstöfunartekjum þeirra tekjulægstu fer í matvöru í dag og þeir þurfa síst á því að halda að við séum að stuðla að því að matvara hækki í verði,“ segir Karl.

Hann segist hins vegar styðja að virðisaukaskattskerfið verði einfaldað og flestir hlutir fari í eitt skattþrep.

„Sem þýðir að ákveðnir hlutir hækka en aðrir lækka. Það er eðlilegt. En matvaran á að vera undanskilin. Þetta er nú einu sinni neysluvara sem við þurfum öll að kaupa og við getum ekki verið án. Við eigum ekki að hrófla við matarverði og stuðla að hækkun á vísitölu neysluverðs með því,“ segir Karl.

Leggja beri virðisaukaskatt á ýmislegt sem nú sé undanþegið skattinum eins og ferðaþjónustuna. En núverandi ríkisstjórn féll frá áformum fyrri ríkisstjórnar um að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna.

„Það er mjög óeðlilegt á meðan fólk er að borga 7 prósenta virðisaukaskatt á matvöru,“ segir Karl.

Fara leið fyrri ríkisstjórnar sem núverandi ríkisstjórn hætti við að fara með virðisaukaskatti á gistingu og svo framvegis?

„Já, ég tel að það eigi að koma inn aftur,“ segir Karl Garðarsson.


Tengdar fréttir

Skattalækkanir í nýju fjárlagafrumvarpi

Formaður þingflokks Sjálfstæðismanna segir innanríkisráðherra njóta óskoraðs trausts þingflokksins. Lekamálið ráðherra og flokknum öllum erfitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×