Bíó og sjónvarp

Talsvert bras að ná í Pras

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Pras Michel.
Pras Michel. Vísir/AP
„Já, ég man vel eftir Íslandi. Við skemmtum okkur ótrúlega vel,“ segir rapparinn Pras þegar blaðamaður spyr hann um tónleika Fugees hér á landi 1997.

Blaðamaður var sjálfur að verða þrettán ára þá og man eftir Pras, Wyclef Jean og Lauryn Hill taka Fu-Gee-La, Ready Or Not og Killing Me Softly. Nokkuð erfiðlega gekk að ná í rapparann og hringdust hann og blaðamaður á víxl yfir Atlantshafið. En loksins gekk það.

„Ég vil endilega senda kveðju til Íslands,“ segir hann samviskusamlega. Pras, sem virkaði alltaf sveipaður dulúð, þegar hann rappaði með Fugees, gaf út tvær plötur undir eigin nafni. Hann átti meðal annars smellinn Ghetto Supastar (This Is What You Are), sem náði efstu sætum á vinsældarlistum um allan heim þegar það kom út árið 1998.

Hann hefur verið rólegur í rappinu, síðan hann sendi frá sér breiðskífuna Win Lose or Draw árið 2005 og hefur snúið sér að öðrum listgreinum. Og það er einmitt tilefni þess að blaðamaður heyrði í honum.

Pras er handritshöfundur heimildarmyndarinnar Sweet Micky For President sem fjallar um forsetaframboð hins umdeilda tónlistarmanns Michel Martelly, sem er betur þekktur sem Sweet Micky. Pras er góðvinur Micky og var sá sem skoraði á hann að fara í framboð og koma þjóð, sem var í sárum eftir hræðilegan jarðskjálfta og áratugi af spillingu, til bjargar. 

Heimildarmyndin hefur sópað að sér verðlaunum og vann meðal annars áhorfendaverðlaunin og verðlaun dómnefndar í flokki heimildarmynda á hinni stóru Sundance-kvikmyndahátíð. 

Michel Martelly, Sweet Micky.
„Ég vissi strax að við vorum með gott efni í höndunum,“ segir Pras um myndina, sem sýnir stöðuna bakvið tjöldin á þessum hamfaratímum og varpar ljósi á grafalvarlegt ástand á Haíti. Inn í myndina fléttast margar þekktar stjörnur, þar á meðal Bill Clinton, Sean Penn og Ben Stiller, sem leggja allir lóð sín á vogaskálarnar til að gera myndina ákaflega eftirminnilega. 

„Viðtökurnar hafa verið alveg frábærar. Maður veit eiginlega ekki hvernig á að taka þessu,“ útskýrir Pras.

Óvinskapurinn og Wyclef Pras stofnaði Fugees ásamt frænda sínum Wyclef Jean. Saman hafa þeir verið þekktustu synir Haíti, þó svo að stjarna Wyclef hafi oftast skinið hærra. 

„Haíti er í blóðinu mínu. Haíti er menningin mín. Ég er ákaflega þakklátur að vera í þeirri stöðu að hafa áhrif á heiminn,“ segir Pras sem var fæddur í Bandaríkjunum. Foreldrar hans fluttust frá Haíti áður en hann fæddist. Hann segist líta á sig sem heppinn mann og að hann hafi fundið til ábyrgðar þegar jarðskjálfti af stærðinni 7,3 skall umbylti lífi íbúa Haíti í janúar 2010. 

Eins og kemur fram í myndinni hafði Pras einnig fengið sig fullsaddan af áratugalangri spillingu og leitaði því til Sweet Micky, sem var þekktur fyrir að láta öllum illum látum á sviði, til þess að breyta málunum. 



Framgangur sögunnar sem sögð er í heimildarmyndinni er í raun hálf ótrúlegur. Þegar Pras og Sweet Micky hafa náð talsverðum árangri í að sannfæra kjósendur, stígur Wyclef fram á sjónarsviðið og tilkynnir framboð sitt til forseta.

„Hann sagði mér ekki frá þessu. Ég fékk ekkert að heyra frá honum áður en hann tilkynnti þetta,“ segir Pras. Eins og kemur fram í myndinni slettist upp á vinskap þeirra félaga. Wyclef sagði meðal annars opinberlega að Pras hefði lítið lagt til á plötunni The Score, sem skaut Fugees upp á stjörnuhimininn.

Wyclef Jean er hér viðstaddur forsetavígslu Sweet Micky árið 2011.Vísir/Getty
Svipaður og Donald Trump

Eins og glöggir lesendur gera sér væntanlega grein fyrir náði Sweet Micky kjöri til forseta Haíti og lætur af embætti á næsta ári, þegar kosið verður aftur.

„Sagan sem við segjum í myndinni er eitthvað sem á við alla og er enn að gerast. Til dæmis eins og í Bandaríkjunum,“ segir Pras. Hann segir að á vissan hátt sé Sweet Micky svipaður karakter og Donald Trump, sem hefur gengið vel í skoðanakönnunum fyrir bandarísku forsetakosningarnar á næsta ári.

„Donald Trump var samt miklu alvarlegri karakter en Sweet Micky. Hann var í fjárfestingum og svoleiðis. En þeir eru líkir að því leyti að þeir skafa ekki utan af hlutunum, þeir segja það sem þeir hugsa. En Sweet Micky var auðvitað miklu umdeildari þannig lagað. Hann gerði ýmislegt skrítið á sviði,“ útskýrir rapparinn.

Í myndinni kemur fram að Sweet Micky kom gjarnan fram á bleiu og var blótaði stjórnvöldum oft í sand og ösku í sjónvarpsviðtölum. En þessi hreinskilni og þessi uppreisnargirni náði til almennings á erfiðum tímum. „Sweet Micky For President er saga fólksins. Hún sýnir að almenningur þarf ekki að sætta sig við spillingu. Hún á við um allan heim.“

The Fugees komu hingað til lands árið 1997. Wyclef Jean, Lauryn Hill og Pras Michel.
Ekki talað við Wyclef lengi

Í myndinni andar greinilega köldu á milli fyrrum Fugees félaganna, eftir að Wyclef tilkynnir að hann ætli í framboð gegn Sweet Micky og Pras.

Glögglega kemur fram í myndinni hversu risastór stjarna Wyclef er á Haíti. Hann er dýrkaður og dáður af þjóð sinni. En framboð hans var ógilt, sem gaf Sweet Micky von um að ná kosningu. Pras segir þá félaga ekki hafa talað saman í dágóða stund.

„Ég man ekki hversu langt er liðið síðan við töluðum saman. En það er liðinn dágóður tími.“ Þrátt fyrir að Pras hafi stutt Sweet Mickey telur hann að vinur sinn hafi ekki staðið sig í stykkinu. „Þetta er ekkert álit mit, þetta eru bara staðreyndir. Hann hefur ekki staðið sig vel sem forseti. Sama hvaða mælikvarði er notaður, honum hefur ekki gengið vel. En hann er samt góður vinur minn og mér þykir vænt um hann. Þó að við höfum heldur ekki talað saman nokkuð lengi. Við verðum alltaf vinir.“

Myndin Sweet Micky for President er sýnd á RIFF-kvikmyndahátíðinni sem nú er í gangi. Karyn Rachtman, framleiðandi myndarinnar, mun koma hingað til lands og gefst áhorfendum kostur á að spyrja hana út í myndina á sýningunni á þriðjudaginn. 

„Ég vona að Íslendingar muni fjölmenna á myndina. Þessi saga á við alla og gefur góða mynd af ástandinu í Haíti,“ segir Pras Michel. Hægt er að sjá nánari upplýsingar um sýninguna hér.

Hér fyrir neðan má síðan sjá myndbandið við lag Pras, Ghetto Superstar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×