Erlent

Takmarkanir settar á úttektir í bönkum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Viðskiptavinir hafa þurft að láta hraðbanka duga en þeir hafa margir tæmst af fé.
Viðskiptavinir hafa þurft að láta hraðbanka duga en þeir hafa margir tæmst af fé. Nordicphotos/AFP
Bankarnir á Kýpur búa sig undir að opna útibúin í dag, eftir nærri tveggja vikna lokun meðan ráðamenn voru að ná samkomulagi við Evrópusambandið um neyðarlán.

Takmarkanir verða þó áfram á því hve mikið viðskiptavinir tveggja stærstu bankanna, Laiki-bankans og Kýpurbanka, geta tekið út í einu. Þá hafa öryggisverðir verið ráðnir til að standa vörð um öll bankaútibú eyjunnar af ótta við að læti geti brotist út.

„Viðvera okkar á að hughreysta bæði starfsfólk bankanna og viðskiptavini,“ segir John Argyrou, framkvæmdastjóri öryggisþjónustufyrirtækis sem útvegar verðina. Hann á þó ekki von á miklum látum: „Það getur orðið einstaka atvik en kurteisi og þolinmæði er í menningu okkar, þannig að ég reikna ekki með neinu alvarlegu.“

Höftin verða í gildi í að minnsta kosti eina viku, eða þangað til ástandið róast. Lokun bankanna hefur valdið jafnt einstaklingum sem fyrirtækjum ómældum vandræðum.

Samkvæmt samkomulaginu, sem náðist á mánudag, verða báðir stærstu bankarnir endurskipulagðir. Stærstu viðskiptavinir þeirra þurfa að taka á sig tap en almenningi er hlíft. Laiki-bankanum verður skipt í „slæman“ og „góðan“ banka og sá góði sameinaður Kýpurbanka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×