Skoðun

Takk fyrir stuðninginn við SÁÁ

Valgerður Rúnarsdóttir skrifar
Álfasala SÁÁ hefst í dag og stendur til sunnudags. Þetta er í 25. skipti sem álfurinn er boðinn til sölu til stuðnings SÁÁ. Álfasalan er ein helsta fjáröflunarleið samtakanna og mikilvægari nú en oftast áður.

Framlög ríkisins til starfsemi SÁÁ duga ekki fyrir kostnaði. SÁÁ hefur brugðist við með því að greiða fyrir meðferð um 500 sjúklinga á ári af sjálfsaflafé. Þessi niðurgreiðsla SÁÁ á lögbundinni heilbrigðisþjónustu hefur valdið uppsöfnuðum halla sem íþyngir rekstri samtakanna.

Fátt bendir til að ríkið ætli sér að auka framlögin. Óbreytt staða gengur ekki til lengdar. Því hefur SÁÁ tekið erfiða en nauðsynlega ákvörðun um að fækka innlögnum í um 1.800 en þær hafa jafnan verið um 2.300 á ári.

Aðgengi að meðferð við áfengis- og vímuefnasýki hefur þótt gott hér á landi. Það er mikilvægt að svo verði áfram. Þar er ekki aðeins heilsa og velferð sjúklinganna sjálfra að veði. Lengri biðtíma eftir meðferð fylgir aukið álag á margar fjölskyldur og þreyta og örvænting, vonleysi, reiði og leiði geta gripið um sig. Þegar að er gáð er líklegt að ríkið sé að spara eyrinn og kasta krónunni með því að greiða ekki fyrir fleiri pláss en nú er gert í því öfluga meðferðarkerfi sem SÁÁ heldur úti.

Sem betur fer hefur almenningur – einstaklingar jafnt og fyrirtæki – staðið þétt við bakið á SÁÁ þegar samtökin hafa þurft á að halda. Stuðningurinn sýnir hvaða hug fólk ber til starfsemi SÁÁ og þessa sjúkdóms sem hefur haft áhrif á flestar fjölskyldur í landinu.

SÁÁ treystir á stuðning almennings nú sem fyrr. Við vonumst til að landsmenn taki vel á móti sölufólki álfsins næstu daga. Með almenning að bakhjarli mun SÁÁ gera það sem í valdi þeirra stendur til að standa vörð um bestu fáanlegu meðferð fyrir alkóhólista, aðra fíkla og fjölskyldur þeirra.

Takk allir, fyrir stuðninginn við SÁÁ, ár eftir ár.




Skoðun

Sjá meira


×