Innlent

Taka ofbeldið nýjum tökum

Andri Ólafsson og Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Friðrik smári Björgvinsson
Friðrik smári Björgvinsson
Hundrað og fimmtíu tilkynningar um heimilisofbeldi bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu (LRH) á fyrri helmingi þessa árs. Það eru um þrjátíu fleiri en á sama tíma síðastliðin þrjú ár.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn LRH, segir að til standi að breyta verklagsreglum og hafi sveitarfélögin á svæðinu lýst yfir vilja sínum til að taka þátt í að skera upp herör gegn samfélagsvánni.

Lögreglan á Suðurnesjum breytti sínu verklagi í þessum málaflokki eftir að tilraunverkefni, sem kallað var „Að halda glugganum opnum“ heppnaðist afar vel. Friðrik Smári segir fullsnemmt að segja til um hvernig breytingar lögreglunnar í borginni verði en segir þó að þær verði hugsanlega í líkingu við það sem gert var á Suðurnesjum. Borgarlögreglan á þar hægt um vik því nýr lögreglustjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, var lögreglustjóri á Suðurnesjum áður.

María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnaverndar í Reykjanesbæ, fagnar því að byggja eigi á góðri reynslu Suðurnesjamanna. „Þetta verkefni hefur skilað miklum árangri og fest sig algjörlega í sessi hér,“ segir hún.

Að sögn Maríu byggir aðferðafræðin meðal annars á því að gerandinn í heimilisofbeldismálum er tekinn af heimilinu. Fjölskyldan getur því dvalið þar áfram í stað þess að þurfa að leita í úrræði á borð við Kvennaathvarfið. Ef gerandi sættir sig ekki við það er nálgunarbanni beitt. Mikil áhersla er lögð á fræðslu og upplýsingagjöf. Til dæmis koma lögregluþjónar og fulltrúar félagsþjónustu aftur inn á heimilið innan þriggja daga til að kynna brotaþola réttindi og valkosti.

María segir að þessi aðferðafræði snúist um að lyfta umræðu um heimilisofbeldi upp á hærra plan.

„Það þurfti að opna þessa umræðu, alveg eins og gert var með umræðuna um kynferðisofbeldi fyrir 25 árum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×