Innlent

Tæring í klæðningu náttúrfræðahúss

Klæðning nýs náttúrufræðahúss Háskóla Íslands, Öskju, er að gefa sig samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Askja var formlega tekin í notkun í apríl síðastliðnum en bygging hússins hófst árið 1997. Samkvæmt heimildum blaðsins veldur hönnunargalli því að klæðningin sem þekur húsið að utan er að tærast upp. Ryðfríir naglar hafi verið settir í klæðninguna og það valdi spennusviði sem hafi tæringu í för með sér. Ekki mun vera hægt að stöðva eyðilegginguna samkvæmt heimildum en jafnvel er talið er að skipta þurfi um klæðninguna með ærnum tilkostnaði. Einn heimildarmanna blaðsins sagði jafnframt að fagmenn hefðu varað við tæringunni þegar bygging hússins stóð yfir. Ekki hafi verið orðið við athugasemdum þeirra. Bygging Öskju var fjármögnuð með tekjum frá Happdrætti Háskóla Íslands eins og aðrar byggingar Háskólans. Heildarkostnaður við byggingu hússins nemur 2,2 milljörðum króna samkvæmt bráðabirgðauppgjöri frá því í apríl. Er þar innifalinn allur kostnaður við bygginguna, þar með talinn sérhæfður búnaður til rannsókna, samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands. Askja hýsir náttúruvísindanemendur Háskólans auk náttúruvísindastofnana Háskólans. Fjöldi nemenda sem þar stunda nám er á sjöunda hundrað en kennsla hófst í húsinu þann 7. janúar síðastliðinn. "Mér hefur borist þetta til eyrna," segir Brynjólfur Sigurðsson, formaður byggingarnefndar Háskóla Íslands, aðspurður um skemmdir á klæðningu hússins. "Ef þetta er eins og mér hefur verið tjáð verður málið rannsakað ítarlega." Brynjólfur segist á þessi stigi málsins ekki vita í hverju skemmdirnar geti falist. "Ég er að reyna að ná í sérfræðinga til þess að rannsaka málið," segir Brynjólfur. Hönnuður hússins, Maggi Jónsson arkitekt, sagðist ekki kunnugt um málið þegar haft var samband við hann.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×