Innlent

Tæp 2,7 prósent kennslustunda fer í tækni- og tölvukennslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Tölvur spila sífellt stærri hluta í lífi Íslendinga og því er nauðsynlegt að auka kennslu.
Tölvur spila sífellt stærri hluta í lífi Íslendinga og því er nauðsynlegt að auka kennslu. Mynd/Valgarður Gíslason
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar hefur þann tilgang að: „efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins.“ Næsta föstudag mun sjóðurinn opna heimasíðu þar sem skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki til að efla tæknikennslu og notkun tækni í skólastarfi.

„Upplýsingatæknigeirinn vex hraðar en flestir aðrir geirar og má segja að fáar atvinnugreinar geti í dag þrifist án tækni. Jafnvel bóndi mjólkar með tölvuróbótum,“ segir í tilkynningu frá Forriturum framtíðarinnar.

Í tilkynningunni segir ennfremur að skortur sé á upplýsingatæknimenntuðu fólki og að bakhjarlar sjóðsins haldi því fram að Háskólar á Íslandi útskrifi tæknimenntað fólk sem anni um 50% af eftirspurn atvinnulífsins. „Á næstu árum er því þörf fyrir að minnsta kosti 100% aukningu á þessu sviði til þess að brúa bilið.“

Þó háskólarnir útskrifi ekki nægilega mikið af tæknimenntuðu fólki á vandamálið ekki síst rætur í tækni- og tölvukennslu í grunn- og framhaldsskólum. „Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla er einungis 2,68% af vikulegum kennslutíma ráðstafað í upplýsinga- og tæknimenntun,“ segir í tilkynningunni.

„Börn og unglingar verja miklum tíma í kringum tækni en oft á tíðum er þeirra reynsla sú að þau verða neytendur tækni í stað þess að fá tækifæri til að vinna með tæknina og skapa eitthvað úr henni.“ Sökum þessa er nauðsynlegt að börn fái þá þjálfun og þekkingu sem þurfi til að kveikja áhuga þeirra á tækninni. „áhugi er fyrsta skrefið í átt að efla tæknimenntun þjóðarinnar.“

Síðan www.forritarar.is verður opnuð næstkomandi föstudag og þar geta skólar og sveitarfélög sótt um styrk til að efla tæknikennslu og notkun tækni í skólastarfi. Einnig að fá þjálfun, ráðgjöf og tækjabúnað. Allt eftir þörfum verkefnisins.

Fyrirtæki af öllum stærðum koma að verkefninu og leggja því lið. Bakhjarlar verkefnisins Íslandsbanki, Landsbankinn, Microsoft, Nýherji og Reiknistofa bankanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×