Innlent

Tækifæri fyrir ný framboð í þessu ástandi

Kjörstaður í Laugardal
Kjörstaður í Laugardal
Tækifæri fyrir nýja flokka og framboð liggja í því hversu fáir eru tilbúnir að styðja þá sem fyrir sitja á Alþingi samkvæmt nýrri könnun. Þetta segir stjórnmálafræðingur sem segir ástandið til marks um óvissu og óánægju með flokkana.

Ný könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins sýnir að ef gengið yrði til Alþingiskosninga nú þá myndi Sjálfstæðisflokkurinn fá tæplega fimmtíu prósent atkvæða, um sautján prósent myndu kjósa Samfylkinguna og svipaður fjöldi Framsóknarflokkinn. Þá myndu rúm þrettán prósent kjósa Vinstri græn og tæp þrjú prósent kjósa Hreyfinguna.

Niðurstöðunum þarf þó að taka með fyrirvara þar sem óvenju fáir tóku afstöðu eða aðeins tæp 44%. Frá síðustu Alþingiskosningum hafa aldrei færri tekið afstöðu til þess hvaða lista þeir myndu kjósa, í könnunum Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir það vekja athygli hversu fáir eru tilbúnir að taka afstöðu og í því felast ákveðið vantraust á þá stjórnmálaflokka sem eiga menn á þingi.

„Það getur bæði verið óánægja og svo náttúrulega óvissa. Það er talað um að það séu framboð í mótun sem eru ekki búin að spila út sínum spilum. Fólk kannski veit ekki hvað kemur til að vera í boði. Það er alveg ljóst að þetta andrúmsloft sem virðist vera í viðhorfum fólks til stjórnnmálanna hlýtur að vera þannig ástand að það liggja í því tækifæri fyrir nýja flokka og ný framboð," segir Grétar.

Þrátt fyrir óánægju er óljóst um áhrif hennar á næstu kosningar og flokkakerfið, segir Grétar en kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en árið 2013.

„Ef að sá dagur kemur að það fari að sjást betur að við erum farin að hafa það almennt betra, þá fer fólk að fá á tilfinninguna að stjórnmálaflokkarnir hafi reynst færir að koma landinu upp úr kreppunni." segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×