Körfubolti

Systurnar úr Borgarnesi hafa aldrei tapað bikarúrslitaleik saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Ósk Ámundadóttir
Guðrún Ósk Ámundadóttir Vísir/Anton
Skallagrímur skrifar kafla í sögu félagsins í dag þegar kvennalið félagsins spilar úrslitaleikinn í Maltbikarnum í Laugardalshöllinni.

Þetta er í fyrsta sinn sem Skallagrímur á lið í bikarúrslitum og félagið getur unnið sinn fyrsta stóra titil í 53 ár eða síðan kvennalið félagsins varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina skiptið árið 1964.

Í liði Skallagríms eru samt leikmenn sem hafa reynslu af því að vinna titla og þar á meðal tvær sigursælar systur uppaldar í Borgarnesi.

Þær Guðrún Ósk og Sigrún Sjöfn Ámundadætur hafa báðar unnið bikarinn oft og mörgum sinnum áður. Það sem meira er að sú eldri, Guðrún Ósk, hefur aldrei tapað bikarúrslitaleik. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir tapaði sínum fyrsta og eina bikarúrslitaleik með Grindavík í fyrra. Þær hafa hinsvegar aldrei tapað bikarúrslitaleik þegar þær hafa veruð í sama liði eins og er raunin núna.

Guðrún Ósk Ámundadóttir hefur unnið bikarinn alls fimm sinnum með Haukum (4) og KR (1) síðast árið 2014 með Haukum.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hefur unnið bikarinn þrisvar sinnum með Haukum (2) og KR (1). Guðrún Ósk var liðsfélagi hennar í öllum þremur bikarmeistaratitlinum eða 2005 og 2007 með Haukum og 2009 með KR.

Guðrún vann bikarinn síðan án hjálpar systur sinnar með Haukaliðinu 2010 og 2014. Jóhanna Björk Sveinsdóttir, núverandi leikmaður Skallagríms, varð aftur á móti bikarmeistari með Guðrúnu fyrir þremur árum.

Kristrún Sigurjónsdóttir, núverandi leikmaður Skallagríms, varð síðan bikarmeistari með systrunum 2005 og 2007.

Úrslitaleikur Skallagríms og Keflavíkur hefst klukkan 13.30 í Laugardalshöllinni. Þar mætast nýliðar Skallagríms sigursælasta bikarliði allra tíma á Íslandi en Keflavíkurkonur hafa unnið þrettán bikarmeistaratitla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×