Erlent

Systkinum verði ekki bannað að sofa saman

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Umræðan um bann við kynlífi systkina tröllríður öllu í Danmörku þessa stundina.
Umræðan um bann við kynlífi systkina tröllríður öllu í Danmörku þessa stundina. Mynd/ Getty.
Einingarlistinn í Danmörku vill afnema bann við kynlífi milli systkina. Málið hefur vakið gríðarlega athygli í Danmörku og hafa nær allir stærstu fjölmiðlar fjallað um það. Samkvæmt löggjöfinni núna er kynlíf systkina ólöglegt og getur varðað tveggja ára fangelsi.

Einingarlistinn telur að það sé ekki í verkahring ríkisins að hafa afskipti af kynlífi fullorðinna einstaklinga og það sé tilgangslaust að gera kynlíf systkina ólöglegt á grundvelli þess að það sé hætta á að fötluð börn fæðist.

Einingarlistinn telur að rökin gangi ekki upp vegna þess að nú þegar er fólki, með alvarlega litningargalla, heimilt að eignast börn. Danska ríkisútvarpið segir að Sósíaldemókratar, Venstre og róttækir vilji ekki útiloka að þeir styðji hugmynd Einingarlistans.

Þá styður Vagn Greve, lagaprófessor við Kaupmannahafnarháskóla, hugmyndina á þeirri forsendu að kynlíf systkina sé löglegt í mörgum evrópskum ríkjum eins og Svíþjóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×