Erlent

Sýndu beint frá hópnauðgun á Facebook

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Facebook vildi ekki tjá sig um málið.
Facebook vildi ekki tjá sig um málið. vísir/getty
Lögreglan í Chicago leitar nú fimm til sex manna sem grunaðir eru um að hafa nauðgað 15 ára stúlku og sýnt beint frá nauðguninni á samfélagsmiðlinum Facebook.

Stúlkunnar hafði verið saknað síðan á sunnudag en lögreglumenn í Chicago fundu hana í gær, daginn eftir að móðir stúlkunnar hafði nálgast lögreglustjórann í Chicago eftir blaðamannafund sem hann hélt og sýndi honum myndir af nauðguninni.

Myndbandið hefur nú verið fjarlægt af Facebook og er talið að tugir manna hafi séð það en enginn þeirra hafði þó samband við lögregluna.

„Lögreglustjóranum var augljóslega brugðið þegar hann sá myndir af stúlkunni og hann var vonsvikinn þegar hann komst að því að fjöldi manns hafði horft á atvikið í beinni útsendingu án þess að hringja á lögegluna,“ er haft eftir Anthony Guglielmi, talsmanni lögreglunnar í Chicago, á vef USA Today.

Sagði hann jafnframt að rannsóknarlögreglumenn væru að færast nær því að finna út úr því hverjir mennirnir í myndbandinu eru.

Facebook hefur ekki viljað tjá sig um útsendinguna en sendi þó frá sér almenna yfirlýsingu þar sem það glæpi á borð við nauðgunina hræðilega og að slíkt efni væri ekki leyft á samfélagsmiðlinum.

Með tilkomu Facebook Live og Twitter Live hefur það orðið algengara að sýnt sé frá alls kyns óhugnaði í beinni útsendingu á miðlunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×