Skoðun

Sýndarsamráð

Mikil óánægja er ríkjandi í mörgum hverfum Reykjavíkur vegna vinnubragða meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins í skólamálum. Á síðasta ári knúði meirihlutinn í gegn vanhugsaðar og illa undirbúnar breytingar á skólahaldi þrátt fyrir mótmæli þúsunda foreldra og viðvaranir fjölmargra fagaðila. Bentu þessir aðilar m.a. á að stefnumörkun lægi ekki fyrir og að hvorki hefði verið sýnt fram á fjárhagslegan né faglegan ávinning vegna breytinganna. Þau svör fengust að stefnumótun yrði unnin samhliða breytingum og að í þeirri vinnu yrði náið samráð haft við nemendur, foreldra og kennara.

Foreldrar fá ekki skýr svörNú hefur komið í ljós að ekkert er að marka þessi heit og hafa borgarfulltrúar Samfylkingarinnar af sannfæringu tekið að sér að framfylgja þeirri stefnu Besta flokksins að svíkja öll loforð. Fulltrúar foreldra og starfsmanna í þeim stýrihópum, sem leiða eiga breytingarferlið í einstökum skólum, kvarta yfir því að svör fáist ekki við einföldustu fyrirspurnum um fyrirkomulag breytinganna, hvað þá hvernig fyrirkomulagi kennslunnar verði háttað til framtíðar. Þar sem stefnumótun og framtíðarsýn liggur ekki fyrir vísa embættismenn slíkum spurningum til kjörinna fulltrúa en þar er svör ennþá síður að finna.

Þetta hafa t.d. foreldrar skólabarna í Grafarvogi fengið að reyna, sem hafa að undanförnu átt í ótrúlegum samskiptum við Oddnýju Sturludóttur, formann skóla- og frístundaráðs. Oddný neitaði í fyrstu að koma á fund foreldra í Hamraskóla til að ræða málin en gerði foreldrum á móti það kostaboð að þrír fulltrúar þeirra mættu koma niður í Ráðhús og fá áheyrn hjá henni þar.

Að lokum tókst foreldrum þó að fá Oddnýju til sín á fund en þar kom fátt nýtt fram. Kvörtuðu foreldrar yfir því að hún gæfi engin svör við ýmsum mikilvægum spurningum vegna brottflutnings unglingadeildar skólans og sérdeildar fyrir einhverfa.

Formaður foreldrafélagsins í Hamraskóla hefur nú sagt sig úr stýrihópi vegna umrædds flutnings og í Húsaskóla hafa bæði formaður foreldrafélagsins og fulltrúi starfsmanna sagt sig úr stýrihópnum þar sem óskir og jafnvel einfaldar fyrirspurnir eru algerlega virtar að vettugi. Þannig er samráðið í framkvæmd hjá borgarfulltrúum Samfylkingar og Besta flokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×