Lífið

Sýna síðkommúníska nostalgíu í kvöld

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Alvöru þorpsbúar leika í The Postman's White Nights.
Alvöru þorpsbúar leika í The Postman's White Nights.
Rússneskir kvikmyndadagar hefjast í dag í Bíói Paradís og standa til 27. október. Rjómi rússneskrar kvikmyndagerðar nútímans verður sýndur en allar myndirnar eru verðlaunamyndir. Frítt er inn á opnunarmyndina í kvöld kl. 18.00 en um er að ræða myndina The Postman's White Nights.

Myndin fjallar um guðsvolað þorp í Rússlandi og er lýst sem „síðkommúnískri nostalgíu með vodkabragði“. Handritið er byggt á sönnum sögum og er notast við alvöru þorpsbúa sem leika í myndinni. Leitin að aðalleikaranum tók meira en ár. Myndin hlaut Silfurljónið fyrir bestu leikstjórn auk Green Drop-verðlaunanna á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í ár.

Stórmyndin Leviathan verður einnig sýnd en hún var útnefnd framlag Rússlands til Óskarsverðlaunanna í ár. Sagan er byggð á Jobsbók Biblíunnar en myndin tekst á við spillingu og kúgun í Rússlandi. Athygli vekur að myndin var fjármögnuð að hluta til af menningarmálaráðuneyti Rússlands en framleiðandi myndarinnar hefur sagt að ólíklegt sé að leikstjóri myndarinnar muni fá slíkan styrk aftur.

Einnig verður hægt að sjá myndirnar Angels of Revolution, sem fjallar um nokkra framúrstefnulistamenn í Rússlandi eftir að kommúnisminn tók völdin, Two Women sem er byggð á frægu leikriti Ivans Turgenjev og White Reindeer Moss sem byggð er á tveimur bókum eftir frægasta rithöfund af þjóðflokki Neneta í Norður-Rússlandi, Önnu Nerkagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×