Innlent

Sýknaður af ákæru um tilraun til nauðgunar

JÓHANN ÓLI EIÐSSON skrifar
Atburðurinn átti sér stað á tjaldsvæði um verslunarmannahelgina 2014. Tjaldsvæðið sem sést á myndinni tengist fréttinni ekki.
Atburðurinn átti sér stað á tjaldsvæði um verslunarmannahelgina 2014. Tjaldsvæðið sem sést á myndinni tengist fréttinni ekki. vísir/heiða
Piltur á tvítugsaldri var í Héraðsdómi Suðurlands, síðastliðinn föstudag, sýknaður af ákæru um kynferðislega áreitni og tilraun til nauðgunar. Ekki var heldur fallist á varakröfu ákæruvaldsins en hún fólst í blygðunarsemisbroti og líkamsárás. Dómurinn var fjölskipaður.

Atburður, sá er var til umfjöllunar, átti sér stað um verslunarmannahelgina árið 2014. Á þeim tíma var hinn ákærði sautján ára en stúlkan, sem kærði hann, sextán ára. Voru þau stödd í útilegu á Suðurlandi ásamt vinum sínum. Einn þeirra var kærasti stúlkunnar en hann hafði sofnað áfengissvefni þegar umrætt atvik gerðist.

Óumdeilt var að pilturinn og stúlkan, sem þekktust ekki fyrir umrædda nótt, fóru frá vinahópnum og gengu í áttina að salerni tjaldsvæðisins. Hins vegar greindi þau á um hvað gerðist eftir það.

Engin áreiðanleg vitni að atburðunum

Stúlkan bar því við að pilturinn hefði áreitt hana með því að kyssa hana nokkrum sinnum á munninn og káfa á rassi hennar innanklæða á leið þeirra að salerninu. Ákæran um kynferðislegu áreitnina stafaði af því.

Þá var hann ákærður fyrir tilraun til nauðgunar með því að hafa í kjölfarið ruðst inn á salernið meðan stúlkan var að pissa. Þar átti pilturinn að hafa berað kynfæri sín og reynt að fá hana til að fróa sér með því að færa hönd hennar að kynfærum sínum. Í ákæru segir að stúlkan hafi náð að rífa sig lausa og komist út en hlotið við það marbletti á handlegg.

Minni vitna sem voru á staðnum var gloppótt sökum ölvunar. Því stóð framburður brotaþola gegn framburði ákærða. Brotaþoli sagði að á leið á salernið hafi pilturinn ítrekað reynt að leiða og kyssa sig meðan ákærði sagði að aðeins hefði verið um „mömmukossa“ að ræða og það hafi verið eina líkamlega snertingin. Að mati dómsins þótti ekki sannað að ákærði hefði gerst sekur um kynferðislega áreitni þar sem orð stóð gegn orði.

Orð gegn orði

Aðilar voru einnig ósammála um hvað átti sér stað á salerninu. Ákærði sagði að hann hefði aðeins farið inn til að pissa en taldi „alveg pottþétt“ að stúlkan hefði séð kynfæri hans þegar hann kom þeim fyrir í buxum sínum á ný. Hann hefði aldrei, á nokkru stigi, ætlað neitt kynferðislegt.

Stúlkan bar því hins vegar við að hafa farið á klósettið og talið sig hafa læst að sér. Skyndilega hafi ákærði komið inn og reynt að varna henni útgöngu og beðið hana um „að runka sér“. Hún hafi náð að komast út og til vina sinna.

Líkt og í fyrri ákæruliðnum þótti dómurunum þremur ekki sannað að pilturinn hafi gerst sekur um háttsemina sem rakin var í ákæru. Orð stæði gegn orði og því þætti sekt ekki sönnuð. Þá var ekki fallist á kynferðisleg áreitni eða blygðunarsemisbrot fælist í því að stúlkan hefði séð kynfæri hans þar sem ekki þótti sannað að kynferðislegur ásetningur lægi þar að baki. Pilturinn var því sýknaður.

Allur sakarkostnaður, tæpar tvær milljónir króna, er greiddur úr ríkissjóði. Dóm héraðsdóms má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×